23.08.1912
Sameinað þing: 7. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 84 í B-deild Alþingistíðinda. (11)

105. mál, sambandsmálið

Lárus Bjarnason. Jeg get þakkað háttv. framsögumanni fyrir þá skýringu sem hann að gefnu tilefni frá mjer gaf á orðalagi þingsályktunartillögunnar, að orðin „til nýrra samninga“ þýddu hið sama sem „samningar að nýju“.

Þannig orðuð bendir tillagan vafalaust til eldri samninga og þá eðlilega til samninganna 1908 eða að minsta kosti til grundvallarins, sem þeir voru bygðir á.

Þetta er væntanlega nægileg skýring á ógreinilegu orðalagi tillögunnar.

Jeg skal svo ekki lengja umræður frekar, hef ekki neina löngun til að fara að karpa við háttv. þingm. Norð-Þing.

En það vildi jeg aðeins taka fram, að eigi hæstv. ráðherra nokkrum sjerstaklega að þakka, að hann er nú aftur kominn í ráðherrastólinn, þá er það vissulega ekki sízt sjálfstæðismönnum. Meðferð þeirra á sambandsmálinu 1909 og núverandi ráðherra var ranglát, og nú er komið að uppreistardögunum bæði fyrir málið og hann.