15.08.1912
Neðri deild: -1. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 651 í B-deild Alþingistíðinda. (1111)

81. mál, bæjarstjórn í Reykjavík

Framsögum. (Benedikt Sveinsson):

Eg vil leyfa mér að þakka fyrir góðar undirtektir í þessu máli við síðustu umræðu og vona að frv. fái að ganga til 3. umræðu.

Eg ætla ekki að fara mörgum orðum um þetta frumvarp, enda óþarft að tala um það alment. Skal aðeins stuttlega minnast á einstakar greinar þess.

1. gr. frumvarpsins heimilar kjósendum til bæjarstjórnar, körlum og konum. að kjósa borgarstjóra. Er það talin trygging fyrir því að borgarstjóri sé bæjarstjórninni óháður, að hann eigi ekki kosning sína undir henni og geti því haft óbundnari hendur af flokkadráttum þar. Í 2. gr. frv. er ákveðið að kosning borgarstjóra verði leynileg. 3. gr. er afleiðing af 1. gr.

Eg veit að margir þingmenn ofan úr sveitum láta sig þetta frumvarp litlu skifta, en eg vona þó, að þeir vilji unna íbúum Reykjavíkur þeirrar sanngirni í þessu áhugamáli þeirra, að þeir hindri ekki framgang frumvarpsins.