17.08.1912
Neðri deild: -1. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 657 í B-deild Alþingistíðinda. (1116)

87. mál, strandferðabátar

Bjarni Jónsson:

Erfitt á eg með að skilja, að ráðherrann skuli vera á móti frumv. á þgskj. 262, því að þar stendur, að ef hann verði búinn að semja við eitthvert gufuskipafélag eða annað félag um strandferðir fyrir lok næstkomandi Októbermánaðar, þá falli frumvarpið eða heimildin úr gildi, og ætti það að vera nægilegur tími fyrir hæsv. ráðherra. Eg fyrir mitt leyti vildi nú helzt fella burt þessa 5. gr. Eg efast um að það sé rétt, að setja inn í lögin ákvæði um að kaupa ákveðin skip við ákveðnu verði. Það gæti skeð að fá mætti, þegar til kæmi, ódýrari skip, annaðhvort til kaups eða á leigu.

Það var réttilega tekið fram af mér hér í gær, að umflotið land geti eigi ráðið viðskiftum sínum nema það eigi sjálft skip. Þetta er beint náttúrulögmál. En eg álít, að hér þurfi stjórnin ekki að eiga skipin, en það mætti stofna innlent hlutafélag og stjórnin gæti verið hluthafl. (Hannes Hafstein: Það er alt annað). Nei, það er nákvæmlega það sama, og mun eg koma með breytingu er að þessu lýtur, og skal hún verða svo skýr, að jafnvel heimskir menn skilji.

Það er alkunn aðferð, t. d. í Noregi, að landið eigi hluti í hlutafélögum, sem mynduð eru þegar koma skal á fót ýmsum fyrirtækjum, og þá sérstaklega er um skip er að ræða. Eg vona að frv. gangi til 2. umr., svo að hægt verði að koma inn ákvæðum þannig, að stjórnin hafi sem frjálsastar hendur, en sitji þó ekki uppi ráðalaus með skip.

Fargjaldið kemur ekki mikið þessu máli við, en geta vil eg þess, að ekki kemur „tour retour“-eftirgjöfin að haldi útlendingum, sem koma hingað og fara héðan aftur, eftir því sem hæstv. ráðh. (H. H.) sagði, og yrði því annað verð fyrir útlendinga en fyrir Íslendinga, en það tel eg ósóma lands og lýðs.

Ráðherra (H. H) sagði að sér félli vel sú hugmynd, að hafa útgerðina innlenda, en mér skildist samt á honum, að hann sæi þess naumast veg, og fanst mér hann, þrátt fyrir það þó hann segði hugmyndina góða, hallast heldur á móti henni, og hefir hann þá líklega ekki sagt þetta með hugsun frá sinni hjartarót, því að þá mundi hann hafa fundið aflvöðvana stælast til þess að vinna að framkvæmdum málsins.

Það var rétt mælt hjá höfundi þessara laga, að nú væri hentugur tími fyrir landið að taka að sér samgöngur þessa lands, og væri að minni hyggju leitt að sleppa tækifærinu, og á það hér réttilega, við sem kveðið hefir verið:

Tækifærið gríptu greitt,

giftu mun það skapa,

járnið skaltu hamra heitt,

að hika er sama og tapa.