17.08.1912
Neðri deild: -1. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 662 í B-deild Alþingistíðinda. (1119)

87. mál, strandferðabátar

Bjarni Jónsson:

Það er alveg rétt, sem hv. fv. ráðh. (Kr. J.) hefir sagt um viðtal okkar út af Björgvinarfélaginu, því eg veit að hann hefir ekki sagt að það hafi verið í Kaupmannahöfn, heldur hér á stjórnarskrifstofu sem við áttum tal saman um þetta.

Eg fór til afgreiðslumanns félagsins hér og bað hann að tala við ráðherra. Það hefir hann gert og símað til félagsins, en þeir hafa ekki sent nein svör, sem á sé byggjandi, eða tilboð til samninga. Auk þess hefi eg sent þeim skeyti með Flóru síðast, en ekki fengið neitt svar. Eg heyri hjá nefndinni, að hún hafi fengið bréf frá Lehtnkul og sýnir það, að vitneskja um þessa málaleitun er þó komin til þeirra.

Þar sem hv. flutn.m. þessa máls (J. Ó.) heldur að brt. mínar séu ónauðsynlegar af því að ekki fáist skip fyrir sviplíkt verð og þessi, þá sé eg ekki að það skemmi þó heimildin geri ráð fyrir fleiri máttuleikum. Ef stjórnin gæti t. d. fengið leigð skip með góðum kjörum, þá væri minni ástæða til að kaupa skip. En stjórnin þarf líka að hafa heimild til að leigja, svo að gott er að hafa heimildir til hvorutveggja í sömu lögunum, því að þá getur stjórnin haft frjálsar hendur til að velja. Það var ekki til að fella málið, að eg bar fram þessar brtill., heldur til að styðja það, því að eg held að þetta sé eini vegurinn út úr þeim vandkvæðum, sem við erum í.

En „það heyrist ekki hundsins mál fyrir helvítis kjaftinum á prestinum“, sagði konan. Eg verð að taka undir með þeim hv. þm., sem sagði hér í dag, að ekki liti út fyrir að það væru nein merkismál, sem hér er um að ræða, jarðeigna og samgöngumál landsins. Eða þá að menn eru búnir að hugsa sér í hvaða hreiðri þeir vilja vera. Eg vil ekki spá neinum hrakspám, en það lítur ekki út fyrir annað, eftir þeim áhuga að dæma, sem menn sýna, þegar um það er að ræða að fá samgöngumál síns lands í eigin hönd. Það sýnist svo sem menn hafi ekki hugsað þetta mál frekar en hér væri um smámuni eina að tefla. En það skal vera mér gleði ef það sýnir sig við atkvæðagreiðsluna að þetta sé misskilningur.