19.08.1912
Efri deild: 28. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 110 í B-deild Alþingistíðinda. (112)

24. mál, stofnun Landsbanka

Eiríkur Briem:

Eins og háttv. deildarmenn sjá, hefur verið talsverður meiningarmunur meðal nefndarmanna um fyrra liðinn í frumvarpinu; en mjer hefur fundizt rjettast að láta standa þá breyting, sem frumv. fer fram á, þannig, að í staðinn fyrir: „Seyðisfirði“ komi: í „Suður-Múlasýslu“.

Aðalástæðan, sem framsögumaður færði fyrir því, að breytingin fjelli burt, var það dæmi er hann tók, að ef maður leitaði sjer láns árangurslaust í öðru útibúinu á sama staðnum, þá væri honum hægra að leita til hins. Þetta getur verið rjett. En hitt er líka títt, að menn t. d. óska að selja víxil, og hann er keyptur af þeim banka eða útibúi, sem hann er boðinn, og þá er stór mikill munur fyrir þá, sem búsettir eru í Suður-Múlasýslu, að þurfa ekki að fara norður á Seyðisfjörð. Svo þetta mundi þá jafnast upp að minni hyggju.

Eins og frsm. sagði, hefur orðið sú breyting síðan 1885, að landssjóður hefur lagt Fagradalsbrautina, og var þá gert ráð fyrir, að viðskiftin úr Hjeraðinu færu þá eftir þessari braut til Reyðarfjarðar og Eskifjarðar.

Nú er brautin komin á, og verðurfarið að nota hana, og viðskiftin færast þá væntanlega þangað, og ekki einungis úr suðurhluta Hjeraðsins, sem ætti hægra með viðskifti, heldur og úr því öllu.

Mjer virðist því ekki ástæða til, að fella breytinguna burt. Það væri fremur ástæða til að fallast á breytingartillögur háttv. þingm. Strand. (?: að í staðinn fyrir: „Seyðisfirði“ komi: á „Austfjörðum“); því þyki vandkvæði á, þegar til kastanna kemur, þá væri þó með þessari breytingu mögulegt, að setja útibúið á stofn á Seyðisfirði, ef þörf krefði.

Háttv. forseti hefur annars bent mjer á það, að ef br.till háttv. 6. kgks þm. yrði samþykt, þá yrði frv. nokkuð ólögulegt, því þá kæmi það til að byrja svo: „Svo er og bankanum heimilt“, í stað þess það ætti þá að vera eitthvað á þessa leið: „Landsbankanum er heimilt“, og ennfremur yrði frumv. þá ekki breyting á bankalögunum heldur viðauki við þau, en þó að frv. að þessu leyti yrði óhöndulegt, þá vona jeg, að háttv. deild lofi því að fara til 3. umr. þá gæti nefndin lagað þessar misfellur.

Viðvíkjandi síðari tillögu nefndarinnar, um afgreiðslustofu ytra vil jeg segja fáein orð.

Eins og nú er háttað þessum viðskiftum, fer vel á þeim. „Landmandsbanken“ hefur nú í yfir 20 ár verið umboðsmaður Landsbankans ytra, en þrátt fyrir það, getur þá þó verið, að það sje hagkvæmt undir einstökum kringumstæðum, að setja slíka afgreiðslustofu á fót. Það þarf ekki eingöngu að vera hagkvæmt til þess, að annast sölu bankavaxtabrjefa, eins og tekið hefur verið fram, heldur einnig til þess að annast ýmiskonar innheimtu.

Það hefur tíðkazt hin síðari ár, og fer stöðugt vaxandi. að kaupmenn selja bönkum víxla, sem eiga að greiðast í útlöndumr falla þar til útborgunar samtímis og áætluð er sala íslenzku vörunnar, og þarf að krefja þar inn. Af þessum víxlum verður bankinn nú að greiða innheimtulaun, en þau spöruðust, ef að slík afgreiðslustofa yrði sett upp, og getur það fje numið nokkuru, ef viðskifti þessi aukast.

Nefndin hefur lagt það til, að samþykki ráðherra verði að fá til þess, að setja afgreiðslustofuna á fót, og finst oss eigi nema eðlilegt, að áskilja það, þar sem í bankalögunum er áskilið samþykki ráðherra til þess, að bankinn megi setja upp útibú hjer innanlands, enda er það mál þess eðlis, að það á að heyra undir ráðherra.

Jeg vil mæla með því, að þessi br.till nefndarinnar verði samþykt, og að frumv. fái að ganga áfram til 3. umr.