17.08.1912
Neðri deild: -1. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 665 í B-deild Alþingistíðinda. (1122)

87. mál, strandferðabátar

Björn Kristjánsson:

Hæstv. ráðh. (H. H.) hélt að það væri aðgengilegasta leiðin að semja við innlent félag. Það er sama sem að segja að Ísland fái samgöngurnar ekki í sínar hendur. Hann veit það eins vel og eg, að alþýða manna getur ekki lagt fram það fé sem til þarf, og hann veit það líka eins vel og eg að bankarnir geta það ekki heldur . Hitt geta bankarnir gert, að ganga inn í kaup Thorsfélagsins á Austra og Vestra og borga þá á 10 árum. Þeir, sem eru á móti málinu og vilja ekki sinna þessu, ganga framhjá þeim eina möguleika.

Þegar verið er að ala um að póstsamgöngurnar á sjó þurfi endilega að vera í höndum prívatfélaga, því er þá landssjóður látinn kosta póstgöngurnar á landi? Eða þá ritsímann, sem er miklu dýrari heldur en þetta? Má þá ekki eins láta kosta hann af prívatfélagi? Það hefur einhverntíma verið ráðist í stærra verkefni en þetta.

Það var engin trygging fyrir því þegar síminn var lagður, að hann myndi borga sig, og hann er ekki farinn til þess enn, en vegna þeirra almennu þæginda sem að honum er, mundu menn nú ekki vilja vera án hans. Eins myndi verða með bátana, þó þeir ekki borguðu sig, myndu hin almennu þægindi og not vera svo mikils virði að það þætti tilvinnandi þó landið tapaði á þeim á pappírnum. Það er undarlegt hvað þeir sömu menn, sem komu ritsímanum á, eru tregir til að bæta þessu við.

Eg tók það fram áðan, að það væri engin leið til að kom póstgöngunum innanlands í rétt horf fyr en landið sjálft ætti strandferðabátana.

Þegar svona stendur á, að útlit er fyrir, að við verðum samgöngulausir á sjó næsta ár, ætti að vera tími til kominn að ráðast í þetta stórræði, að kaupa þessa tvo smábáta og fá að borga þá á 8-10 árum. Mér finst djörfung koma fram í öðru hér á þinginu, en hugleysi í þessu.

Eg held að við ættum að hætta að semja við útlendinga um strandferðir; það hefir altaf gefist illa. Það er líka ómögulegt fyrir útlend félög, að reikna út hvað þessu landi hagar.

Eg vil svo að ending ítreka það, sem eg sagði áðan, að eg vona að hv. deild fallist á frv. eins og það liggur fyrir.