17.08.1912
Neðri deild: -1. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 666 í B-deild Alþingistíðinda. (1123)

87. mál, strandferðabátar

Matthías Ólafsson:

Herra forseti! Eg er fullkomlega á því máli, að sá endir verði á, að landið taki að sér allar samgöngur, bæði á sjó og landi. En eg álít að ekki sé tækifæri til þess nú, og sá hentugi tími ekki kominn.

Fyrst og fremst veit eg ekki hvaðan hv. flutn.m. (J. Ó.) hefir heimild til að fullyrða að þessi skip fáist fyrir fyrir 340 þús. kr. Eg held að það sé meira ágizkun en vissa. (Jón Ólafsson: Það er tilboð frá félaginu). En þó að bátarnir fáist fyrir þetta verð, þá eru þeir ekki þess virði. Þeir eru kolafrekir og ferðlitlir og ekki vel til fallnir til þess að nota þá til strandferða. Fjárhagurinn er heldur ekki svo glæsilegur nú, að rétt se að halda áfram lánsleiðinni, enda er það landsmönnum mjög á móti skapi. Það er búið að halda svo langt út á þá leið, að tæpast er fært lengra. Það yrði þá að vera fyrirtæki, sem gæfi gróða í aðra hönd, en það getur þetta aldrei orðið.

Eg álít alls ekki kominn tíma til að ráðast í þetta fyrirtæki, en rétt að bíða átekta og vita, hvort ekki bjóðast betri tækifæri. Þessir bátar eru svo litlir, að ekki viðlit að nota þá til ferða milli landa, og að hafa þá að eins til strandferða myndi ekki gefa af sér annað en tap og tjón. Ekki lízt mér betur á að leigja bátana með skuldbindingu um að kaupa þá seinna, og verð eg algerlega að ráða frá því.