22.08.1912
Neðri deild: -1. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 673 í B-deild Alþingistíðinda. (1137)

104. mál, einkasöluheimild á steinolíu

Björn Kristjánsson:

Eg lít svo á, sem frumvarp þetta hafi verið borið fram til vara, ef dagskrá hefði ekki verið samþykt, að því er stjórnarfrumvarpið um einkasölu á steinolíu snertir. Menn gengu upprunalega út frá því, að verðhækkunin á steinolíu, sem svo mikið er talað um, væri ekki almenn um Norðurlönd, heldur að eins hjá einstökum félögum, en samkvæmt upplýsingum, sem eg hefi fengið, þá er verðhækkunin almenn og því verður frumvarpið þýðingarlaust, því að þá getur landið ekki útvegað olíu, sem ekki er hækkuð í verði.

Eg er hinum háttv. flutningsmönnum samdóma um, að eigi að taka einokun í lög á annað borð, þá sé landseinokun miklu betri en að selja verzlunarréttindin einstökum mönnum á leigu. En eg er eindregið mótfallinn allri einokun í hvaða mynd sem er, og þess vegna get eg ekki fylgt þessu frumv. Auk þess er orðið svo áliðið þingtímans, að enginn tími er til að gera frumv. svo úr garði, að sæmilegt væri.

Eg vildi stinga upp á að málinu, samkvæmt 52. gr. þingskapanna, sé vísað til stjórnarinnar, enda er það í samræmi við stefnu deildarinnar í þessu steinolíumáli.