22.08.1912
Neðri deild: -1. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 674 í B-deild Alþingistíðinda. (1139)

104. mál, einkasöluheimild á steinolíu

Flutn.m. (Jón Ólafsson):

Herra forseti! Eg held að jafnvel þeir sem móti eru allri einokun, geti ekki haft mikil rök á móti þessu frumv., eins og á stendur nú. Menn verða að gæta þess, að nú hefir steinolíufélagið náð einokunartökum á steinolíuverzluninni hér á landi, og þá er þó að minsta kosti betra að einokun sé á landsins hönd. Það eru til í Ameríku félög, sem eru óháð Standard Oil Co. Þar sem sagt hefir verið að hægt væri fyrir steinolíufélagið að flytja inn ósköpin öll áður en lögin gengju í gildi, þá gerir það ekki svo ýkja-mikið, því að félagið getur ekki selt hana ódýrara en landssjóður getur útvegað olíu, og færi það verðið niður, þá er tilganginum með frumvarpinu náð. En auk þess girðir sjálft frv. sæmilega fyrir þennan ímyndaða ýkja-mikla innflutning, eins og eg hefi áður tekið fram. Frumvarpið, ef það yrði að lögum, myndi líka losa kaupmenn úr þeim samningaböndum, sem D. D. P. A, er búið að hneppa þá í; eru sumir þeirra jafnvel bundnir til 40 ára. Hvað tímann snertir, þá er hann nógur, vel hægt að hafa 3 umr. á dag, ef menn vilja, jafnvel þótt málið verði sett í nefnd, en vilji menn samþykkja málið án þess að skipa nefnd, þá höfum við flutningsmennirnir auðvitað ekkert á móti því.