22.08.1912
Neðri deild: -1. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 674 í B-deild Alþingistíðinda. (1140)

104. mál, einkasöluheimild á steinolíu

Ráðherrann (H. H.); Þótt ekkert tillit sé tekið til efnis frumvarpsins, þá er formið á því svo ófullkomið að ekki er viðunandi.

Eg skal að eins benda á 2 gr. Eftir henni getur stjórnin stöðvað allan aðflutning á steinolíu til landsins, bara með því að lýsa yfir því, að hún ætli að nota heimild þá, er þetta frumvarp fer fram á að veita henni. Slíkt ákvæði án allra frekari ákvarðana og skýringa getur verið mjög varhugavert. Það geta t. d. verið mörg skip á leiðinni. Í frv. vantar með öllu ákvæði um hvernig skuli fara að í svipinn, meðan annað fyrirkomulag er að komast á („Overgangsbestemmelser“).

Lánsheimildin, að stjórnin megi taka það lán, sem henni þykir við þurfa, er altof viðtæk og óákveðin.

Þá virðist mér og nokkuð viðurhluta mikið, að alls ekkert er um það ákveðið, hvernig á að sjá um að steinolíunotendur út um landið nái til steinolíu, eftir að aðflutningur er bannaður öllum nema stjórninni. Mér sýnist nú enginn stórvoði vera á ferðum, þó að olíufatið hafi hækkað í verði um 5 kr. í svip og það er heldur engin trygging né jafnvel líkindi fyrir að stjórnin geti greitt úr málinu, þótt hún fái þessa heimild, meðal annars er engin trygging fyrir að hún geti fengið það lán, sem nauðsynlegt er, með viðunanlegum kjörum. Og að því er útvegun steinolíu snertir, er við ramman reip að draga, þegar miljarða-samsærin eru á móti. En komi lögin að engu haldi, er hætt við að árangur þeirra verði sá einn, að vekja vonbrigði í landinu, óánægju og tortrygni gegn stjórninni, sem eftir hlutarins eðli aldrei getur fært fullar sannanir fyrir því, að hún hafi ekki getað gert meira en hún gerir.