22.08.1912
Neðri deild: -1. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 681 í B-deild Alþingistíðinda. (1146)

104. mál, einkasöluheimild á steinolíu

Flutningsmaður(Jón Ólafsson):

Herra forseti! Eg skal ekki þrátta við hæstv. ráðherra (H. H.) um að frv. það sem hér lá fyrir í gær, sé betra en þetta, hitt frv. er fallið svo að það er einungis málalenging á tæpum þingtíma að þrátta um það. Hér er aðeins um tvent að velja, annað hvort að taka þessu frv. eða þá að gera ekkert til að bæta úr vandkvæðunum. — Það hvílir mér vitanlega engin skylda á neinum að flytja hér inn steinolíu, né hafa hana fyrirliggjandi á hverri höfn, kaupmenn verða sjálfir að vera sér út um hana og panta hana og það gætu þeir ekki síður gert þó að landið tæki að sér einkaleyfi til innflutnings; landið ætti þá bara að sjá um, að til væri nóg steinolía einhvers staðar á landinu til dæmis í Reykjavík og væri þá fult svo auðvelt fyrir kaupmenn að panta olíu úr Reykjavík í stað þess, eins og flestir þeirra gera nú, að panta hana frá Steinolíufélaginu danska. Ekki væri það nein frágangssök, þótt kaupmenn ættu að borga út í hönd, eg býst við, að þeir mundu flestir hafa einhver ráð með það og þá getur alls engin skulda verzlun komið til greina.