22.08.1912
Neðri deild: -1. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 682 í B-deild Alþingistíðinda. (1147)

104. mál, einkasöluheimild á steinolíu

Ráðherrann (H. H.):

Háttv. 2. þm. S.-Múl. (J. Ól.) sagði að nú væri engin skylda fyrir kaupmenn að hafa steinolíu á hverri höfn, og er það rétt, en á því verður ekki bygt, af því að nú er frjáls samkepni; hverjum er frjálst og skylt að bjarga sér sem bezt getur. En þá fyrst væri ástæða til þess að skylda vörusalann, hvort heldur er landssjóður eða privatfélag, til þess jafnan að hafa nægar birgðir, þegar öllum öðrum sundum er lokað, og ekki í neitt annað hús að venda, að viðlagðri þungri ábyrgð. Og oft mundi það koma í ljós að menn eru engu bættari út um land, þó að til væri olía hér í Reykjavík, af því að þeir gætu ekki með viðunanlegu móti nálgast hana héðan, en mundu hins vegar hafa átt skamt til birgða að sækja, ef kaupmenn eins og hingað til hefðu getað fengið sér olíu frá útlöndum eins og aðrar vörur sínar. Taki landið þessa verzlun, þá verður það jafnframt að sjá fyrir nægum birgðum í öllum landsfjórðungunum.