22.08.1912
Neðri deild: -1. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 682 í B-deild Alþingistíðinda. (1148)

104. mál, einkasöluheimild á steinolíu

Flutn.m. (Jón Ólafsson):

Herra forseti! Það er hér á landi engin teljandi samkepni með steinolíu; salan er nálega öll í höndum danska einokunarfélagsins.

Eftir frv. er það nóg, ef til er nægileg steinolía á einum stað í landinu, eins og eg tók fram áðan og vilji kaupmenn ekki panta hana, þá gera það kaupfélögin og sveitafélögin. Frumvarp þetta er eini vegurinn til að bjarga oss frá þeim vandkvæðum, sem nú eru.

Háttv. ráðherra (H. H.) læzt ekki skilja það, að hér ræðir eingöngu um innflutning og heildsölu á olíu. Kaupmenn og kaupfélög og aðrir ættu jafn fjálst með að kaupa og selja olíu, eins og áður en steinolíufélagið náði hér einokun, með þeim eina mismun, að þeir hefðu það hagræði, að kaupa á innlendum heildsölumarkaði hér, í stað þess að verða að kaupa af heildsölum í Skotlandi eða annars staðar úti í heimi — og kaupa hana hér ódýrara, en líkindi væru til að þeir fengju hana erlendis, því að heildsalar þar mundu ekki láta sér nægja innkaupsverð og kostnað; þeir mundu reikna sér nokkuð í ábata.

Vilji háttv. þingdeildarmenn að þjóðin komist úr þessum vandræðum, þá er að samþykkja frumv., annars að fella það og mun það þeim ekki ábyrgðarlaust, sem það gera.