22.08.1912
Neðri deild: -1. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 712 í B-deild Alþingistíðinda. (1160)

104. mál, einkasöluheimild á steinolíu

Jón Jónsson (Rvk):

Herra forseti! Það ekki lengra síðan en tveir sólarhringar, að samþykt var hér í deildinni svohljóðandi rökstudd dagskrá, sem eg skal, með leyfi hæstv. forseta, lesa upp:

„Deildin treystir því, að landstjórnin finni, ef á kynni að þurfa að halda, útvegi til þess að byrgja landið með steinolíu, gegn viðunanlegu verði, svo sem með því, fyrir milligöngu bankanna, að stuðla að stofnun innlends félags til steinolíukaupa, eftir atvikum með þáttöku af hendi landssjóðs eftir föngum, og tekur deildin því fyrir næsta mál á dagskrá“.

Mér er ómögulegt að sjá annað, en að hér sé verið að ítreka það, sem samþykt var í fyrradag, með því að bera þetta frumv. hér upp í deildinni í dag. Ef um það gæti verið að ræða, að landssjóður tæki þátt í verzlun landsins, þá á það aldrei að vera öðru vísi en í sambandi við innlenda kaupmannastétt. Hitt er blátt áfram að taka atvinnu af mönnum. Landssjóður gæti eins vel tekið að sér einkarétt á útgáfu bóka og rithöfundarétt, og gæti það orðið mér og háttv. 2. þm. S.-Múl. (J. Ól.) tilfinnanlegt. Yfir höfuð get eg ekki fallist á að einokunarstefnan sé réttmæt, í hvaða mynd sem hún kemur fram. Það er sagt að það sé verið að taka fyrir kverkar okkur með þessari steinolíuverðhækkun. En má eg spyrja: Á landssjóður að taka í taumana í hvert sinn sem einhver vörutegund hækkar í verði? Og ef svo er, hvar eru þá takmörkin? Það getur verið tilfinnanlegt í svip, að vara hækki í verði, en það helzt naumast til lengdar.

Satt að segja finst mér þingmenn vera nokkuð snúningsliðugir í þessu máli. Eg er ekki svo snúningsliðugur, að eg þurfi ekki nema tvo sólarhringa til að skifta um skoðun.