22.08.1912
Neðri deild: -1. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 721 í B-deild Alþingistíðinda. (1167)

104. mál, einkasöluheimild á steinolíu

Pétur Jónsson:

Eg get hvorki felt mig við frv. óbreytt, né með þeim brtill., sem fram hafa komið, nema þá helzt br.till. háttv. þm. Sfjk. (V. G.), af því að hún er framkvæmanleg, en hins vegar efast eg mjög um að hún geti komið að notum. Ef menn ætla sér að afgreiða þetta í báðum deildum, þá mundi ekki veita af að lengja þingið um heila viku, og eg efast um að menn væru þá það nær en áður eftir þá viku, að eg gæti fremur orðið því fylgjandi þá, en nú.

Eg veit því ekki að hér sé um hækkun að ræða, sem komi hart niður á okkur, sérstaklega vegna mótorbáta útvegarins. En hún mun koma jafn hart niður á nálægar þjóðir. Mér er sagt að hún sé jafnvel ennþá meiri í Danmörku, og til Noregs er hún komin og eftir upplýsingum háttv. 1. þm. K. G. (B. K.) nær hún einnig til Þýzkalands. Nú þykir mér mikið, ef við ráðumst í að hefjast handa, að þá skuli stjórnir annara ríkja og landa þola þola þetta. Við vitum það, að hringarnir ráða lögum og lofum um olíuverzlun í Danmörku (Jón Ólafsson: Þar er ekkert þing nú) og ef þeim og öðrum dettur ekki í hug að reyna að sporna við þessu, þá er það ekki okkar meðfæri heldur. En ef önnur ríki gera eitthvað til þess að hrinda þessu af sér, þá væri líka vegur til þess fyrir okkur, að reyna það. Þess vegna vildi eg að ráðherrann vildi grenslast eftir því, hvort Danir geri nokkuð af ríkisins hálfu í þessu máli og eins hvort nokkur önnur ríki gera það, því að þá fyrst getum við hugsað til að fá samtök er dygðu móti öðru eins og þessir hringar eru, sem heil þjóðlönd skjálfa fyrir. Eg ætla því að leggja það til, að málinu verði vísað til stjórnarinnar, með þeirri „mótíveringu“, sem eg nú hefi lýst, að ráðherrann afli sér sem fyrst vitneskju um hvernig þessu máli líður annars staðar.