23.08.1912
Neðri deild: -1. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 729 í B-deild Alþingistíðinda. (1174)

104. mál, einkasöluheimild á steinolíu

Frams.m. (Jón Ólafsson):

Herra forseti! Hv. 1. þm. Rv. (L. H. B.) hefir talað mikið um það, að þessi lög séu óframkvæmanleg. Það hafa menn heyrt áður, og eg held að hann sannfæri ekki fleiri menn um það, en hæstv. ráðh. (H. H.) gerði. Þetta kemur. víst af því, að þeir eru báðir jafnókunnugir verzlun. Hann vildi ráðleggja hæstv. ráðh. að ráða Hans Hátign konungi frá að staðfesta þessi lög ef til kæmi, og efast eg ekki um, af hve heilum hug það er sagt. En eg efast heldur ekki um, að ef hæstv. ráðherra ætlaði sér, að bera ekki frv. upp fyrir konung, þá mundi hann segja þinginu það nú hreinskilnislega, og hitt hefi eg sagt, að eg hefi lýst trausti mínu til hans svo fyllilega, bæði með þessu frv. og endranær, og eg lýsi hér jafnframt yfir því að eg ætlast ekki til að honum verði greitt vantraustsatkv., þótt hann bæri ekki frv. fram. Eg vil vinna meira en það til þess að hafa hann við stýrið.

Háttv. 1. þm. Rv. (L. H. B.) sagði að landssjóði mundi verða salan dýrari, en einstökum mönnum. Það er satt, að oft eru verk landssjóðs dýr, en það mundi ekki eiga svo sérstaklega heima hér. Það má einmitt benda á það til samanburðar, hvernig þessi stóru félög, eins og D. D. P. A. eru rekin. Þau ausa blátt áfram út fé á báðar hendur.

Eg hefi heyrt eina sanna sögu um mann, sem fél. hafði í sendiferðir. Hann var nýr í þjónustunni, og hafði sín föstu laun; en átti jafnframt að fá endurgoldinn ferðakostnað eftir reikningi. Þá er hann kom úr fyrstu ferðinni, lagði hann fram ferðakostnaðarreikninginn, ofursanngjarnan reikning. Félagið borgaði honum hann orðalaust, en rak hann svo úr þjónustu sinni, kvaðst ekki geta notað menn, sem ekki kynnu að brúka peninga, (?: þ. e. eyða nógu miklu). Maðurinn hafði ekki látið kampavínið streyma á hverri höfn!

Í samanburði við slík félög hygg eg að landinu mundi varla verða verzlunin svo tilfinnanlega kostnaðarsöm. Loks spurði hv. þm. mig, hvort eg hefði augastað á nokkrum sérstökum manni til að annast um framkvæmdir þessa máls fyrir stjórnina, ef til kæmi. Eins og eg hefi þegar sagt, hefi eg talað við 3—4 velmetna fésýslumenn, sem hver um sig mundu vera fúsir til að taka þetta að sér, og eg efast ekki um að miklu fleiri mundu vera fáanlegir til þess.