23.08.1912
Neðri deild: -1. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 731 í B-deild Alþingistíðinda. (1175)

104. mál, einkasöluheimild á steinolíu

Bjarni Jónsson:

Eg skil ekki hvers vegna hæstv. ráðh. (H. H.) þykir það svo agalegt, þótt bætt sé við þessu ákvæði, að lögin skuli ekki gilda nema til ársloka 1913, þar sem honum og öðrum er þó ljóst að þing verður haldið á næsta ári. Mér þótti eins og það væri á honum að heyra, að það mundi þá ekki gera það í þessu máli, sem skynsamlegt er, eða verður, en það hefir hann ekki ástæðu til að efast um. Hann taldi það mátulegt, að hann þyrfti að hugsa sig um áður hann útvegaði konungsstaðfestingu á þessi lög. Þess þarf hann alls ekki, því að hann er sjálfráður um það, hvort hann notar heimildina, sem í þeim liggur, og hve snemma. Og ef hann ætlar sér að gera það, þá þarf það ekki heldur að taka langan tíma, því að hann getur símað áður en lögin eru samþykt og fengið svar, og að því loknu undirbúið alt hér heima áður en hann siglir, og síðan gert þær ráðstafanir sem þarf þar ytra, þegar þangað kemur.

Það, sem mér þykir undarlegast í þessu máli, er það, að þeir sem áður voru ólmastir í að einoka verzlunina og selja hana á leigu, skuli nú leggjast fastast á móti þessu frv.

Eg hefi ætíð litið svo á, að ógerningur sé að selja einstaklingum hana í landsins nafni, og eg hefi líka umboð til þess frá kjósendum mínum, að berjast á móti slíkri einokun. En á hinn bóginn er eg þeim líka samdóma um hitt, að landseinokun sé ekki á móti réttum grundvallarreglum og geti jafnvel verið heppileg undir vissum kringumstæðum, og því er eg þessu frumv. meðmæltur. Eg álít sem sé, að nauðsyn beri til að grípa til þessa úrræðis, ef verðhækkun á steinolíu heldur áfram. Ef verðið fellur, svo að þess er ekki þörf, þá tekur það ekki lengra, en eg álít alt of mikla hagsmuni vera hér Í veði, til þess að hafast ekki að, ef öllum vélabátaútveginum er hætta búin. Það mundi kosta oss margar milj. kr. ef hann stöðvaðist, og annað er ekki sýnna, ef olían stígur mjög í verði. Það getur aldrei skemt, að hafa þessa heimild í lögum, og eg veit ekki til að stj. hafi nokkurntíma fyr verið boðið slíkt vald og fé og traust frá þingsins hálfu, til þess að gera skynsamleg ráð fyrir hag landsins, og eg skil ekki hvernig hún ætti að fara að því, að drepa hendi við þeim sóma, sem henni er hér sýndur.

Hæstv. ráðh. (H. H.) var hræddur um að landið kynni að liggja með óseldar olíubirgðir að árinu loknu, en ef svo færi, er ástæðulaust að ímynda sér að þingið myndi ekki framlengja lögin, enda lítil ástæða til að hugsa sér að til slíks komi nokkurn tíma.

Þá talaði hv. 1. þm. Rvk. (L. H. B.) um það, hve óeðlilegt væri að keyra þetta mál í gegnum þingið á svo skömmum tíma. Eg er líka á því, að óheppilegt sé að þurfa þess, en nú er þegar langt liðið á þingtímann, og sumir hv. þm. hafa óspart hótað því, að hlaupast á brott sem fyrst, og hygg eg þó að almenningur muni líta svo á, að þingið hefði getað gefið sér tveggja eða þriggja daga ráðrúm í viðbót, þegar ekki er um minna að tefla, en alla vélarbátaútgerð í landinu.

En þar sem hann sagði, að væri hann ráðherra, þá mundi hann ráðleggja konungi að synja þessum lögum staðfestingar, þá er því þar til að svara, að ráðherra gæti auðvitað gert slíkt, en þá mundi þingið bara verða að útvega sér annan ráðherra næst. (Lárus H. Bjarnason: „Værs’god!“).