23.08.1912
Neðri deild: -1. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 737 í B-deild Alþingistíðinda. (1180)

104. mál, einkasöluheimild á steinolíu

Pétur Jónsson:

Eg vildi að eins benda á, að mér fanst vera alt of mikið gert úr þessari 5 kr. verðhækkun á steinolíufatinu, og að það er bygt alveg í lausu lofti, að olían muni hækka meira. 5 kr. hækkun á fati nemur 125.000 kr. á því sem notað er árlega af steinolíu hér á landi, en á árinu 1910 hækkaði sykur um 5 aura, og nam það yfir 200.000 kr. á sykri þeim, er til landsins fluttist það ár. Kaffi hefir hækkað viðlíka í verði, og hefir þó engum dottið í hug að grípa til neinna örþrifaráða. Yfirleitt mega menn ekki kippa sér alt of mikið upp við verðhækkanir, því að þær eru alls ekki óalmennar.