26.08.1912
Neðri deild: -1. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 746 í B-deild Alþingistíðinda. (1188)

104. mál, einkasöluheimild á steinolíu

Lárus H. Bjarnason:

Eg skal ekki tala langt erindi, stend með fram upp til þess að minnast lofsamlegra ummæla hv. þm. Ísfjk. (Sig. St.) um hv. Nd. í sambandi við þetta mál, geri það til þess að þau séu ekki með öllu óþökkuð. Að vísu veit eg það, að ekki er rétt að taka þann þm. ætið alvarlega, og eins hitt, að þau hermdarorð, sem hann lét út úr sér, að viðstöddum hv. forseta Nd. og fleiri hv. þm. héðan úr deildinni, voru ekki orð hv. Ed. En því vil eg slá föstu, að framkoma hans var ekki einungis óprestsleg, heldur og gersamlega ósæmileg hverjum mentuðum þingmanni.

Annað, sem eg vildi vekja athygli á, er sá gegndarlausi flysjungsháttur og ósamkvæmni. sem kennir í meðferð þessa máls. Hv. Ed. er nýbúin að sþ. að skora á stjórnina að koma með rækilega undirbúið frv. um þetta efni fyrir næsta þing. Nú steypir hún sér kollhnýs, þvert ofan í þá þingsál. till., umturnar frv. Nd., og svo var ákafinn mikill, að frv. var útbýtt prentuðu nokkrum mínútum áður en deildin hafði samþykt það. Hæstv. ráðherra grípur fram í, til að verja þetta atferli, það er þó líklega ekki undan hans rifjum runnið, eins og sumt fleira skrítið í háttv. Ed.

Líkt er að farið hér í deildinni, fyrst er stjórnarfrumv. drepið með rökstuddri dagskrá og svo er komið með nýtt leigueinokunarfrv., sem a. m. k. nú er orðið verra en stjórnarfrv., því að í því voru þó viðurlög nokkur og takmarkanir, en hér er alt lagt á vald stjórnarinnar. Það getur skeð, að það sé gott fyrir fyrir hana, en noti hún heimildina, er þó ekki ómögulegt að hún fengi einhverntíma orð í eyra. Frv. getur ekki orðið til þess að lækka verð á olíu, því að í því felst ekki einkasöluheimild, en án slíkrar heimildar mundi hvorki landsstjórnin né nokkur skynsamur einstaklingur fara að hætta fé sínu í samkepni við jafnríkt félag og D. D. P. A. er. Hver einasti maður getur selt eins mikið af steinolíu og hann vill hér í landi eins fyrir því, þótt þetta frv. yrði að lögum, því að það gefur einungis heimild til einkainnflutnings. Forstjóri félagsins D. D. P. A., sem nú stendur hér að baki mér í ráðherraherberginu, og sem menn þykjast vita það um, að muni bráðum komast í nágrenni við hæstv. ráðherra, gæti þess vegna ekki einungis selt allar þær birgðir af olíu sem félagið á hér, heldur og alla þá steinolíu. er hann kynni að geta flutt inn í landið, áður en innflutningsbannnið skylli á. Þetta frv. er því alveg þýðingarlaust, enda óþarft. Dagskráin sem samþ. var hér á dögunum nægir til að firra menn öllu tjóni, fáist steinolía nokkursstaðar með betra verði en hjá D. D. P. A. Það er innan handar, að fá vitneskju um verð á olíu í Ameríku með símskeyti. Stjórnin hefði getað verið búin að því, og hv. 1. þm. G. K. (B. Kr.) hefir lofað aðstoð þess banka, sem hann veitir forstöðu. Auk þess lá eiginlega lánsheimild í dagsskránni, ef ekki er ex lege, þá að minsta kosti de facto, og þess þurfti þó ekki einu sinni, því að það er til nóg fé, til þess að panta fyrir skipsfarm frá Ameríku, að minsta kosti með tilstyrk bankanna.

Hvað viðvíkur ákvæðinu um, að félagið eða mennirnir sem stjórnin semur við skuli vera innlent, þá er það hégóminn einber, því að þótt svo sé áskilið í lögunum, að félagið eigi að vera innlent, þá er, eins og líka hæstv ráðh. (H. H.) hefir tekið fram, enginn vegur til þess að girða fyrir það, að það verði ekki í raun og veru útlent. Maður sem á heima í Ástralíu, getur líka átt heima á Íslandi. Til þess þarf ekki annað en að hann hafi hér líka dúk og disk, og er viðskiftaráðunauturinn okkar gott dæmi þessa. — D. D. P. A. þarf ekki annað en að setja í í staðinn fyrir seinna D-ið, og sé eg ekki að það verði neitt betra fyrir það, enda gæti eg bezt trúað því, að sumum væri ekki fjarri skapi að útvega því lögtrygðan einkarétt samkv. frv. Allir vita að milliþinganefndin ætlaði sér að ná samningum við það og ekkert félag annað.

Hv. 2. þm. S. Múl. (J. Ól.) bjóst við því, að steinolían mundi hækka enn meira í verði en orðið er. Eg hefi nú fyrir mér orð forstöðum. D. D. P. A. sem hér stendur, að til þess komi ekki, og veit eg að hann muni mótmæla orðum mínum, ef eg fer rangt með.

Hæstv. ráðh. (H. H.) gat auðvitað ekki gefið fullnægjandi svar við áskorun hv. 2.þm.S.-M. (J.Ó.) um að veita leyfið að eins innlendu félagi, enda er ómögulegt að útiloka það, að félagið sé útlent í raun og veru þó, kalla megi það innlent. Þeir sem hafa ekki verið að leika sér, þegar þeir greiddu atkv. gegn stjórnarfrv., ættu því að sjá sóma sinn og fella einnig þetta frumv. Stjórnarfrv. var þó þeim mun skárra að þar voru áskilin ýms viðurlög til tryggingar því, að landsmenn yrðu ekki gegndarlaust flegnir. Annars má geta þess, að sú saga gengur nú hér um bæinn, þótt ekki segi eg hana sanna, að maður nokkur sem áður hefir fengist hér við ýmislegt, svo sein eimskipaútgerð og verzlun í stórum stýl leggi töluvert kapp á framgang þessa máls og væri þá líklega til með að beitast fyrir það. Læt eg ósagt hve gott það mundi verða þessu fyrirtæki, ef þetta væri satt, en líklega eru hér einhverjir persónulegir hagsmunir á bak við (Sigurður Sigurðsson; Á báða bóga). Má vera að hv. þm. viti eitthvað betur til þess, en eg, en sanni hann það, ef hann getur, úr því hann kastar þessu fram, að við. sem móti frv. leggjumst, höfum persónulegan hag af því. Eg held að andstæðingar frv. megi miklu fremur búast við óþægindum af afstöðu sinni, því að nú er risin hér allsterk alda þessa dagana með þessu eða þvílíku úrræði, en eg ætla ekki að láta það hræða mig frá því, að greiða atkv. eftir sannfæringu minni Eg hefi áður látið froðu brotna á mér, og eg ætla að gera það enn.