22.07.1912
Neðri deild: -1. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 759 í B-deild Alþingistíðinda. (1197)

35. mál, eftirlit með síldveiðum

Flutningsm. (Guðlaugur Guðmundsson):

Eg skal, gagnvart orðum háttv. þm. Dal. (B. J.), taka það fram, að það liggur alls ekki í þessari tillögu, að sérstöku skipi sé haldið úti, sem hafi vald til að taka síldveiðaskip, sem eru við ólöglegar veiðar. Til þess að hafa slíkt vald, þyrfti að fullnægja kröfunum í samningnum frá 1903, nfl. að yfirmaður skipsins sé herforingi úr viðurkendum her einhverrar þjóðar. Tillagan fer ekki fram á annað en settur sé fastur landhelgisvörður til þess að hindra brot og tryggja sönnun fyrir þeim, ef þau koma fyrir. Annað þarf heldur ekki hér. Það kemur aldrei til, að handsama þurfi skipin fyr en við land, og þar hefir lögreglustjóri viðkomandi lögsagnarumdæmis fult vald til þessa, án þess að brjóta í bága við nokkra alþjóðarreglu. Slíkt þarf ekki að óttast meðan ekki er farið fram á frekara en þessi þingsályktunartillaga gerir.

Það er ekki af gleymsku, að eg hefi ekki minst á tilboð það, er stjórninni hefir borist frá einstökum manni, heldur er það bæði af sérstökum ástæðum, sem eg ekki kæri mig um að nefna frekar, og líka vegna þess, að eg álít stjórninni dálítið varhugavert að ganga að því í því formi, sem það nú liggur fyrir í, þótt það hins vegar geti verið til mikilla bóta með nokkurum breytingum. Það var með vilja, að við gerðum tillöguna eins viðtæka og hún er, til þess að stjórnin hefði fult umboð til þess að gera það, sem hún áliti tryggast og heppilegast, og til þess treysti eg henni vel, í samráði við lögreglustjórn hér um rædds lögsagnarumdæmis.

Eins og eg tók fram, hlýtur öll þessi löggæzla að vera höfð á hendi frá landi, og get eg ekki séð, að með þessu sé nokkrum rétti erlendra ríkja troðið um tær. Þau fara tæplega að amast við þannig löguðum verði, sem ekki hefir annan starfa á hendi en að tryggja sönnun fyrir brotum, sem kunna að verða framin.

Háttv. 1. þm. Rvk. (L. H. B.), sem mælti mikið með því, að nefnd yrði sett í þetta mál, gat þess meðal annars því til stuðnings, að ekki lægi á að samþykkja þessa tillögu En til þess að sýna hv. deild að það bráðliggur á þessu, skal eg gefa þær upplýsingar, að síldveiðar eru þegar byrjaðar fyrir nokkru, og með því eftirliti, sem nú er á þeim stöðvum, efast eg ekki um, að brot eru framin daglega. Eg er þess fullviss, að fregnir um ólöglegar veiðar berast hingað innan fárra daga, og er slíkt hörmulegt, þar sem svo auðvelt er bæta úr, því það er áreiðanlegt, að síldveiðaskipin þyrðu ekki að fremja lögbrot, ef þau ættu það víst, að þau yrðu tekin strax og þau kæmu til lands. Sá er nfl munurinn á þeim og botnvörp ungum, að þeir geta strax farið burtu með aflann. án þess að leggja hann á land, en síldveiðaskipin eru neydd til þess, ella mundi síldin gerskemmast á fáum dögum.

Eg hygg, að þetta mál græði litið á að fara í nefnd. Býst ekki við, að hún komi með betri tillögu en þeir menn, sem nákunnugastir eru á þessum stöðvum norðanlands. En annars mun eg ekki, ef háttv. deild sýnist svo, beinlínis setja mig upp á móti því, að nefnd verði skipuð.