27.07.1912
Neðri deild: -1. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 761 í B-deild Alþingistíðinda. (1201)

35. mál, eftirlit með síldveiðum

Bjarni Jónsson :

Br.till. á þgskj. 77 stafar af því, að við tillögumenn hugðum að stjórninni ætti að vera það kærara, að hafa heimild frá þinginu til þess að halda úti skipi í þessu skyni, sérstaklega svo að hún mætti verja til þess meira fé, en nú er varið til þessa eftirlits í fjárlögunum. Til hins þarf enga þingsál.till., að hún verji til þess því fé, sem þegar er til þess veitt. Það væri ekki að eins vitalaust verk af henni, heldur sjálfsagt. Það gerir hún líka auðvitað sjálfkrafa, og hlýtur lof allra landsmanna fyrir því að öllum þykir mikils um það vert, að strandgæzlan sé aukin. Eg skil því ekki í öðru en að öllum mönnum, að minsta kosti á þessum stað, sé það ljóst, að þessi þingsál.till. væri óþörf, ef hér væri ekki um nýja heimild að ræða. Aðalatriðið er einmitt það, að stjórnin fái heimild til að taka til þessa eftirlits meira fé en heimilt var áður, alla þá upphæð, sem þarf til þess að eftirlitið komi að haldi. Og til þess álítum við tillögumenn, að hæfilegt væri að heimila henni að verja því fé sem svarar alt að helmingi sekta og andvirðis upptæks afla og veiðarfæra.

Eg býst ekki við að nokkur neiti því, að Íslendingar hafi fullan rétt til lögreglueftirlits innan landhelginnar, því að það sem stendur í 1. gr. samningsins frá 1903 er nefndur var við 1. umr. og hljóðar svo:

„Ákvæðin í samningi þessum, er fara fram á að skipa fyrir um löggæzlu við fiskveiðar í hafinu umhverfis Færeyjar og Ísland fyrir utan landhelgi við eyjar þessar, hafa gildi fyrir þegna hinna tignu samningsaðila“, nær alls eigi til þessa. Þarna er eingöngu talað um svæðið utan landhelginnar, þar sem íslenzk lögregla nær alls ekki til. Eg vona því að enginn háttv. þm. fælist frá því, að orða till. eins og við viljum orða hana.

Eg vona að menn sjái að það er til hagræðis fyrir stjórnina, þegar hún þarf að svara máli eins einstaks, ákveðins manns, sem hefir boðið fram sjálfan sig og skip til þessa eftirlits. með ákveðnum kjörum. Þetta er ekkert leyndarmál, að maðurinn hefir skrifað stjórnarráðinu og fengið hjá því sæmileg svör, og fáist heimildin hjá þinginu til þess að gjalda honum fé það, sem þarf, þá getur það ekki komið til mála, að neinir aðrir eigi hér úrskurðarvald um. en stjórnarráðið. Og þessi maður hefir einmitt áður verið riðinn við þetta eftirlit manna mest og hefir lagt fram vitnisburð Vigfúsar Einarssonar, lögreglustjóra á Siglufirði um það, að hann hafi reynst duglegur í því. Skal eg leyfa mér að lesa þann vitnisburð með leyfi hæstv. forseta:

„Að herra Guðmundur Guðlaugsson á Akureyri hafi rækt starf sitt á Siglufirði síðastliðið sumar vel og samvizkusamlega í alla staði með reglusemi og dugnaði, er mér ánægja að votta og hefði eg engan fremur kosið mér til aðstoðar við löggæzlu þar á staðnum, þar sem mér var þörf á duglegum manni.

Reykjavík 29. okt. 1911.

Vigfús Einarsson.“

Eg hygg, að okkar orðalag á tillögunni geri stjórninni hægra fyrir að svara tilboði því, er henni hefir borist. Raunar getur tillaga nefndarinnar náð yfir þetta atriði, en hún er að mínu áliti nokkuð óákveðin. Loks skal eg leyfa mér að benda hæstv. ráðherra á það, að fari svo að eitthvað þyki misráðið í þessu efni, þá kemur það ekki niður á stjórninni sjálfri heldur á Alþingi.