27.07.1912
Neðri deild: -1. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 766 í B-deild Alþingistíðinda. (1203)

35. mál, eftirlit með síldveiðum

Framsögum. (Guðlaugur Guðmundsson):

Út af þeim orðum hv. ráðherra (H. H.), að alt væri nú með ró og spekt á Siglufirði, skal eg geta þess, að það er mjög skiljanlegt, því að svo hefir alt af áður verið um þetta leyti sumars. Það hefir aldrei bólað þar á neinum óeirðum fyr en í ágústmánuði — enda munu ekki öll þau síldveiðaskip, sem von er á, vera kornin til landsins enn þá. Samt sem áður er það hin mesta nauðsyn, að sem minstur dráttur verði á þessu máli, vegna þess, að síldin hefi í ár gengið fyr en vant er. Eftir skýrslum, sem mér hafa borist, er þegar búið að salta úr 39 þús. tn. Þótt það sé rétthermt hjá hæstv. ráðherra (H. H.) að lögreglustjórinn á Siglufirði hafi skýrt honum frá, að alt væri þar með ró og spekt, þá getur hann ekkert um það sagt, hvort ólöglegar veiðar eigi sér stað eða ekki, vegna þess að talsverð breyting er orðin á veiðunum síðan í fyrra. Nú ganga fleiri skip frá Eyjafirði, en færri skip frá Siglufirði en áður. Það stafar af því, að verksmiðjur hafa verið settar á stofn í Eyjafirði til þess að vinna olíu o. fl. úr síldinni. Og þótt nú sé rólegt í landi, þá er það engin sönnun fyrir að svo verði lengur en vikutíma og lögreglustjóri getur, eins og eg sagði, ekki haft gát á því að ekki sé rænt og ruplað í landhelgi. Samt þykir mér sennilegt, að hvorki verði þar framin landhelgisbrot í dag eða á morgun, vegna þess að varðskipið Heimdallur liggur þar fyrir landi þessa dagana — en það verður innan skamms að fara til Danmerkur. Til þess að varðskip geti komið að nokkru gagni þar nyrðra, verður það að vera daglega á flökti um sjálfar veiðstöðvarnar. Hitt kemur að litlum notum, eins og oftast hefir verið, að það skjótist við og við á milli Akureyrar og Siglufjarðar, en sýnir sig aldrei eða sjaldan á síldarmiðunum.

Eg get ekki séð, að það sé rétt hjá hæstv. ráðherra (H. H.), að þetta mál standi í nokkru sambandi við málaleitanir Norðmanna. Eg get hvorki hugsað mér að Norðmenn fari fram á, eða við gengum nokkurn tíma að þeim samningum, að heimila veiðar í landhelgi. En þessi tillaga lýtur að eins að eftirliti með veiðum í landhelgi. Þar er því ekkert samband á milli.

Viðvíkjandi því atriði, að síldveiða skipum er bannað að hafa skipsbáta sína utanborðs í landhelgi, þá skal eg kannast við að það er ákaflega strangt og því nær hið sama sem að banna þeim að flytja afla sinn frá veiðistöðvunum utan landhelgi, á land. En þetta ákvæði er komið inn í lögin eftir tillögum foringjans á danska varðskipinu, er kvað það alveg nauðsynlegt til þess að hægt væri að taka skip, er væru að ólöglegum veiðum. Þeir gætu að öðrum kosti fiskað í landhelgi eftir vild, en ef til varðskipsins sæist, hleyptu þeir síldinni úr nótinni og látist vera að bæta netin í bátunum. Annars álít eg fyrir mitt leyti, að ekki væri miklu slept, þótt þetta ákvæði yrði numið úr gildi, einkanlega ef gert væri út skip, sem væri á daglegu flökti á veiðistöðvunum og varnaði brotum. Það er alls ekki meining mín, eins og eg hefi áður tekið fram, að slíkt skip ætti að hafa vald til að handtaka lögbrjóta, heldur ætti það að eins að tryggja sönnun fyrir þeim brotum er framin yrðu. Og þá er eg þess fullviss, að síldveiðaskipin mundu fremur skyrrast við að ganga ofan í lögin. Eins og eg tók fram, þá hefi eg ekkert á móti því, að ákvæðið um skyldu veiðiskipa til þess að hafa báta sína innanborðs í landhelgi sé numið úr gildi sérstaklega ef við fáum eitthvað í aðra hönd í staðinn fyrir það. En, sem sagt, það kemur ekkert þessu máli við og eg álít alsendis óþarft að fresta því vegna þessarar málaleitunar Norðmanna, sem hæstv. ráðh. (H.H.) talaði um.