10.08.1912
Efri deild: 21. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 118 í B-deild Alþingistíðinda. (121)

30. mál, mótak

Jón Jónatansson (framsögum.):

Jeg þarf ekki að fara mörgum orðum um frv. þetta, þar sem álit nefndarinnar liggur fyrir.

Ástæðan til þess, að frv. þetta er komið fram, er sú, að Búnaðarfjelag Íslands hefur fengið kvartanir frá sveitum, þar sem mjög er þjettbýlt, t. d. Akranesi, um það, að slíkar reglur vantaði, og að þeir, sem móinn tækju, gerðu landsspjöll með mótekjunni, enda er það kunnugt, að víða, þar sem mór er tekinn, er landið meira eða minna eyðilagt; ofmikið land eyðist til mótaksins, illa gengið frá mógröfum, svo að með því eru beinlínis búnar til hættur fyrir fjenað og í þriðja lagi er mjög ógreitt að rækta landið á eftir. Það er því auðsætt, að það er mikil umbót á því fyrir þessi hjeruð, ef hægt væri að bæta þetta með þar til settum reglum; þess vegna fanst nefndinni rjett, að veita heimild til slíkra samþykta.

Það má öllum augljóst vera, að ef þetta á að nokkru gagni að koma, þá má ekki veita öðrum atkvæðisrjett um samþyktir þessar, en landeigendum og umráðendum mótaks, því þeir sem mótakið nota, en fá það leigt af öðrum, hafa alls ekki hagkvæma meðferð mólandsins fyrir augum.

Eins og háttv. Nd. gekk frá frv. þessu, hefði það ekki að haldi komið, því að fyrir heila sýslu er oftast ekki þörf á slíkum samþyktum, og þar af leiðandi enginn áhugi fyrir þeim í sumum hreppum. Það er því mjög hætt við, að þeir hreppar, er samþyktina þurftu ekki, hefðu snúizt öndverðir gegn því, að nokkur samþykt yrði gerð. Þetta hefur nefndin lagað með breytingartillögu sinni.

Loks hefur nefndin orðað frv. nokkuð skýrar, en henni hefur verið bent á, að bæta mætti orðalagið enn að nokkru, og mun nefndin gera það við 3. umr.

Annars sje jeg ekki ástæðu til, að taka fleira fram, en vænti þess, að háttv. deild samþykki breytingartillögur nefndarinnar og síðan frv. í heild sinni.