26.07.1912
Neðri deild: -1. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 775 í B-deild Alþingistíðinda. (1210)

34. mál, eyðing refa

Einar Jónsson:

Eg get að öllu leyti tekið undir það með hv. 1. þm. Árn. (S. S.), að það væri hin mesta nauðsyn að útrýma tóunni hér á landi. Að hinu leytinu er eg honum ósamþykkur í því, að nokkur von sé um að framkvæma það. Það vita allir, að tóan er ekki fyrir augum manna eða á almannafæri þegar hún er að bíta féð. Mönnum er ómögulegt að vita, hvað mikið hún etur af fé, og að vera að fyrirskipa stjórninni, að útvega skýrslur um það, sem enginn maður veit, það er bara að leggja árangurslausa fyrirhöfn á stjórnina. Talsverðu fé hefir árlega verið varið til refaveiða, og er það satt bezt að segja, að það er ófullnægjandi, meðan ekki er búið að drepa síðasta yrðlinginn, en hætt er við, að það verði seint. Það er víst vani hreppa að gera sitt ítrasta í útrýmingu refa. Og þótt farið sé að rannsaka, hvað það muni kosta, að útrýma refum algerlega, er víst ekki hægt að rannsaka það. Eg tel þessa tillögu til einkis gagns, heldur að eins til þess að leggja árangurslausa byrði á stjórnina og alla þá menn, sem skýrslurnar eiga að gefa.

Eg mundi ekki hafa lagt á móti tillögunni, ef hún hefði verið framkvæmanleg, en þessari tillögu svipar til svo margra þingsályktunartill., sem hrúgað er hér inn á þingið og eru bæði óþarfar og al gagnslausar.