26.07.1912
Neðri deild: -1. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 777 í B-deild Alþingistíðinda. (1212)

34. mál, eyðing refa

Flutningsm.(Sigurður Sigurðsson):

Það má vera, að þessi tillaga sé ekki ýkja nærgætin gagnvart stjórninni, en að óreyndu vil eg ekki gera landsstjórninni þær getsakir, að hún muni ekki gera alt, sem í hennar valdi stendur, til að rannsaka málið, ef tillagan yrði samþykt.

Um hitt er eg samdóma þeim 2 hv. þm. sem talað hafa, að hér sé um töluverða erfiðleika að ræða, að safna ábyggilegum skýrslum, en ókleyft hygg eg það ekki.

Hv. þm. N.-Þing. (B. Sv.) sagði, að við þetta hefði verið glímt hér á landi í 1000 ár; það veit eg að satt er. Og það er stöðugt verið að gera tilraunir til þess að eyða refunum, en þær fara í handaskolum, eins og eg tók fram áðan. Árangurinn af þeim minni en búast mætti við, ef betur væri um þetta búið. Máske hv. þm. haldi, að vér megum ekki vera án refanna, af því að vér höfum haft þá í 1000 ár. Það kann að hafa vakað fyrir honum.

Eg kannast við það, að erfitt sé að safna skýrslum um það, hvað margt fé er bitið árlega. En árlega eru vanskil á fé af afréttum, einkum lömbum. Hvað verður þá af því fé? Það glatast aðallega með þrennu móti, af dýrbiti, ferst í ám eða vötnum eða er stolið af mönnum. Eg þori að fullyrða, að af þessu þrennu er tóan drýgst, og eg tek það upp aftur, að óhætt mun að skrifa flest eða öll lömbin á hennar reikning, sem vanta á haustum. Síður á það sér stað um fullorðið fé, og eru þess þó dæmi, að tóa hefir bitið í heimahögum fullorðnar kindur, jafnvel sauði.

Það væri máske rétt að setja nefnd í málið, ekki vil eg þó stinga upp á því sjálfur. Læt eg kylfu ráða kasti, en ekki trúi eg fyr en eg tek á, að hv. deild felli tillöguna.