30.07.1912
Neðri deild: -1. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 787 í B-deild Alþingistíðinda. (1224)

117. mál, tilboð frá norsku stjórninni

Guðlaugur Guðmundsson:

Viðvíkjandi því atriði, sem seinast var tekið fram, að það væri nauðsynlegt, að nefnd tæki til athugunar, hvort nú væri fyrir hendi þær sömu ástæður og áður til þess að lækka hesta- og kjöttollinn í Noregi gæti haft þýðingu fyrir Ísland, þá skal eg taka fram, að talsverð breyting mun vera hér á orðin að því er kjöttollinn snertir frá því er var fyrir 15 árum. Eg hygg að nú, þegar þau félög, sem mest flytja út af kjöti, hafa komið á kjötskoðun og merking á kjöti, þá séu betri skilyrði fyrir góðum markaði í Danmörku fyrir hendi en áður voru, og þar af leiðandi ekki eins skaðlegt fyrir okkur, þó að tollur sé á því í Noregi. Hinu get eg ekki gert mikið úr, að útflutningur á íslenzkum hestum færi mjög í vöxt, þó að tollurinn í Noregi væri lækkaður. En þrátt fyrir þetta þá er það sjálfsagt, að nefnd sé látin athuga þessi atriði. Það er ekki nema sjálfsögð kurteisisskylda, úr því miklar bréfaskriftir hafa verið út af þessu frá báðum hliðum.

Eg get ekki verið samdóma háttv. þm. Sfjk. (V. G.) um það, að stjórnin hafi farið rangt að í því, að fara með þetta mál til þingsins, einkum af því að hér horfir dálítið sérstaklega við. Það er hér að ræða um tilslökun, eða afnám, á ákvæðum laga, sem nýlega hafa verið samþykt hér á Alþingi, og umboðsvaldið hefir enga heimild til að hreifa við þeim án samþykkis löggjafarvaldsins. Það er ákveðið í lögunum frá 11. júli 1911, sem skylda síldveiðaskip hér við land til þess að hafa veiðarfæri sín og báta innanborðs í landhelgi. Þetta ákvæði er þannig lagað, að það gerir smærri skipunum veiðarnar lítt mögulegar. Þau eiga erfitt með að draga bátana inn og þeir eru stórir og bera skipin ofurliði. Eins og eg tók fram, þá er hér um lagaboð að ræða, og því er ekki nema eðlilegt, að stjórnin spyrji þingið fyrst um, hvort það með nokkrum skildögum vilji gera breytingu að því er lagaboð þetta snertir. Eg er hræddur um, að það mundi verða skoð að sem frekja, ef stjórnin hefði upp á sitt eindæmi farið byrja á samningum um þetta atriði án þess að spyrja þingið til ráða, og svo gæti farið, að það eftir á vildi alls ekkert sinna málinu. (Valtýr Guðmundsson: Stjórnin styðst við þingfylgi síns flokks). Mér er algerlega ókunnugt um, að stjórnin hafi nokkuð beizli, sem.hún geti stungið upp í þingmennina og teymt þá á í hvaða smámáli sem er. Það er að minsta kosti varkárara að eiga ekki undir því.

Það er auðvitað leitt, að Norðmenn hafa varist öllum fréttum um það, hvað þeir vilji ganga inn á, en því nauðsynlegra er það, að nefnd fjalli um málið. Þar sem hér er um ákveðið lagaboð að ræða, getur nefnd og þing sett föst ákveðin skilyrði fyrir breyting eða afnámi laganna. Þingið og nefndin standa þar mikið betur að vígi en stjórnin. En þegar nefndin og þingið hafa unnið sitt verk, þá er það auðvitað stjórnarinnar að semja nánara hin einstöku atriði.

Annars er þetta lagaákvæði, sem hér um ræðir, mjög strangt, en það er sett inn í löggjöfina eftir tilmælum yfirmannsins á varðskipinu, sem sagði, að ella mundi erfitt að hafa nokkuð eftirlit með ólöglegum veiðum, svo í lagi sé. En óneitanlega fer það nokkuð langt og gerir skipunum lítt mögulegt að fara um landhelgissviðið, þótt það sé ekki að ólöglegum veiðum.

Eg vildi leggja það til, að í stað 5 manna nefndar, sem stungið hefir verið upp á, verði máli þessu vísað til nefndarinnar, sem kosin var til þess að athuga þingál.till. um eftirlit með síldveiðum fyrir Norðurlandi, og henni yrði heimilað að kjósa sér tvo menn í viðbót.