30.07.1912
Neðri deild: -1. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 789 í B-deild Alþingistíðinda. (1225)

117. mál, tilboð frá norsku stjórninni

Ráðherrann (H. H.):

Eg er samdóma hv. þm. Ak. (G. G.) í athugasemdum hans, og skal leyfa mér að lýsa yfir því, að því fer fjari, að eg hafi nokkuð á móti uppástungu hans um það, að vísa þessu máli til nefndarinnar, sem kosin var til þess að athuga þingsál.-tillöguna um eftirlit með síldveiðum fyrir Norðurlandi. Mér hafði einmitt hugkvæmst það sjálfum, að það mundi heppilegast, en gleymdi að taka það fram.

Háttv. þm. Sfjk. (V. G.) vildi hvetja stjórnina til þess að hætta sér meira fram en hún gerði, — hefir ef til vill haldið, að hún ynni þá eitthvað það, sem gæti orðið henni að falli. En hér var slíkt hvorki rétt aðferð né heldur heldur hægt að nota hana, vegna þess að fyrirrennari minn í ráðherraembættinu var búinn að skrifa utanríkisráðaneytinu um það áður, að hann sæi sig ekki hafa heimild til þess að gera nokkuð við málið nú, en mundi bera sig saman við Alþingi þegar það kæmi saman. Eg hafði því ekki lausar hendur og skil heldur ekki annað en hver þingstjórn hefði orðið að snúa sér til þingsins í slíku máli, og svo hafa Norðmenn einnig litið á, — þeir hafa líka snúið sér til þingsins. Í bréfinu sem eg gat um áðan og dagsett er 11. júlí þ.á. er það beint tekið fram, að allar tilraunir í þessa átt hafi hingað til strandað á mótspyrnu af hálfu „agraranna“ (?: bændaflokksins) á þingi Norðmanna, en nú fyrst sé komin sú breyting á skoðanir manna þar, að hann geti tekið málið upp. Það lítur ekki út af þessu, að hann hafi verið svo „hugdjarfur“ eða svo innlifaður hugsjónum háttv. þm Sfjk. (V. G.), að vilja hætta sér út í þetta upp á sitt eindæmi.

Nú ríður á að mál þetta dragist ekki mjög lengi Það geta verið miklir hagsmunir í veði. Hér er það verkefni fyrir nefnd að láta uppi álit sitt um, hvort vér höfum þann hag af að slíkir samningar takist, að það borgi sig að leggja nokkuð í sölurnar. Og einmitt vegna þess að Norðmenn hafa ekkert látið uppi um það, hve langt þeir vilji fara, er fremur þörf á nefnd, er geti kynt sér og trygt sér vilja þingsins um ákveðin skilyrði, sem stjórnin geti hagað sér eftir.