30.07.1912
Neðri deild: -1. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 799 í B-deild Alþingistíðinda. (1233)

117. mál, tilboð frá norsku stjórninni

Sigurður Sigurðsson:

Eg fyrir mitt leyti hefi ekkert á móti því, að

þessu máli sé vísað til nefndarinnar í málinu um eftirlit með síldarveiðum útlendinga fyrir Norðurlandi. En hitt verð eg að leggja áherzlu á, að bæði nefndin og stjórnin fari mjög varlega í uppástungum sínum og tillögum um tilslakanir og ívilnanir til handa Norðmönnum.

Það er satt, að vér Íslendingar höfum oftlega farið þess á leit, að afnumdir væru tollar af hestum og kjöti, sem héðan flyzt til Noregs, en Norðmenn hafa verið á móti því fram á síðustu stundu. Nú eru þeir vaknaðir, og hvers vegna?

„Kennir þegar kemur að hjartanu“, segir máltækið. Nú fyrst rumska þeir, þegar þeir finna að löggjöf Íslendinga snertir hagsmuni þeirra, og vilja nú mæta oss á miðri leið. Án þess að fara langt út í það, hve mikil ástæða er til þess fyrir oss að æskja lækkunar á tolli af hestum og kjöti sem héðan er flutt til Noregs, vil eg endurtaka það, að bezt er að fara varlega í þessu efni. Svo virðist sem nú sé það ósk og vilji Norðmanna að semja, þegar þeir sjá að til einhvers er að vinna.

Viðvíkjandi því, hverjar ástæður vér höfum til þess að æskja lækkunar í hesta- og kjöt-tolli í Noregi vil eg taka það fram, að það er mjög ólíklegt, hvað hestana snertir, að þar sé til mikils að vinna, þótt tollurinn verði lækkaður eða afnuminn.

Í öllum landbúnaðarblöðum Norðmanna er unnið á móti innflutningi hesta héðan og sagt, að íslenzkir hestar reynist lakar en hinir vestfirzku hestar þeirra, Nordbagen. Slík ummæli blaðanna munu sjálfsagt hafa áhrif á bændur þar, svo að ekki er víst, að mikið sé unnið fyrir oss þótt hestatollurinn sé lækkaður.

Ef til vill er öðru máli að gegna með kjöttollinn. — Nú sem stendur er aðalmarkaður vor fyrir kjöt í Danmörku, þótt mjög sé takmarkaður. Það er því eigi ólíklegt, að lækkun á kjöttollinum í Noregi geti haft einhverja þýðingu fyrir oss með tilliti til sölu á íslenzku kjöti þar.

Í sambandi við þetta mál vil eg leyfa mér, með leyfi hæstv. forseta, að beina þeirri spurningu til skattamálanefndarinnar, hverju það gegni, að ekki skuli enn vera fram komið frá nefndinni frv. til laga um viðauka við lög um útflutningsgjald af fiski og lýsi.

Eg man það, að hv. þm. Ak. (G. G.) sagði við 1. umr. málsins, að óþarft væri að vísa því til nefndar; frv. væri svo. sjálfsagt. — Frumv. hefði nú getað verið orðið að lögum, og getur töfin bakað landssjóði tekjumissi. Þessu er eg og margir fleiri óánægðir yfir. En eg vona þó, að þessi dráttur standi ekki í neinu sambandi við þessa tillögu, sem hér er nú til umræðu í deildinni.