30.07.1912
Neðri deild: -1. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 800 í B-deild Alþingistíðinda. (1234)

117. mál, tilboð frá norsku stjórninni

Bjarni Jónsson:

Eg vildi mega gera litla athugasemd. Eg ber ekki brigður á það, að rétt sé að fara varlega í þessa samninga, eins og háttv. 1. þm. Árn. (S. S.) komst að orði. En það var ekki rétt hjá h. þm., að Norðmenn hafi ekki sint þeirri málaleitan vorri, að fá lækkaðan toll af hestum og kjöti héðan. Það hefir bæði verið rætt á fundum víðs vegar um Noreg og sömuleiðis á þinginu. Mér er kunnugt um það, að margir landbúnaðarfélagafundir hafa verið meðmæltir því, að afnema alveg tollinn af geldum hestum og jafnvel merum, en að eins ekki af graðhestum. Á þingi Norðmanna hefir málinu líka verið hreyft. Í það sinn var mjög hlegið að Holstmark landbúnaðarráðherra, sem sagði í ræðu, að bændur gæti vel beitt kúm sínum fyrir plógana. Þetta sýnir, að málið hefir verið rætt, og er ekki rétt að gera málstað Norðmanna óvinsælli en vera ber. Auðvitað er það, að þeir hlaupa ekki upp um háls á oss fyrir ekki neitt. Það býst eg við, að stjórnin viti og gæti því varúðar.

Sami hv. þm. gat þess, að blöð Norðmanna tækju illa undir innflutning hesta héðan. Þetta er rangt hermt. Eg þekki ritstjóra eins hins merkasta blaðs í Ósló, þó eg muni ekki nafn hans nú í bili, sem stjórnin í Noregi snýr sér oft til, þar á meðal hefir hún gert það um hestatollinn, og hefir hann verið afnámi tollsins fylgjandi í blaði sínu, með þeim skilmálum, er fyr voru taldir.

Það er víst, að þetta mál hefir mikið verið hugsað og rætt í Noregi, þótt ekki hafi það fengið lagaform. Ef ráðuneytis Knudsens hefði notið lengur við, mundi málið hafa fengið framgang. En það varð undir í kosningum. Og nú í vetur hafði stjórnin á ný heitið mér því, að láta lækkun á hestatolli koma fyrir Stórþingið. En þá tókst svo illa til, að Konow sagði í samsæti einu, að hann hefði ætíð verið „málmaður“, og veltist úr sessi fyrir þau orð. Hin nýja stjórn hefir eigi haldið hans loforð.

Sami hv. þm. mintist á vestfirzku hestana, norðbakana svo nefndu, og taldi að vorir hestar mundu ekki fá komist á markað í Noregi þeirra vegna. En það er athugandi, að norðbakar eru smábændum of dýrir, en vorir hestar þeim betur hentir fyrir verðs sakir.

Eg skal og benda á það, að afleiðingin af því, að stjórnin gerir samninga við Norðmenn um þetta efni, mundi verða sú, að Svíar færu hins sama á leit og mundi þá tollur á hestum vorum lækka þar. En þar hefir um nokkur ár verið gerð tilraun með hestasölu af Svía einum í Gautaborg, er keypt hefir íslenzka hesta af dönsku félagi, síðustu ár 300 hesta á ári, en er nú kominn hingað til norðurlandsins í því skyni að ná beinum viðskiftum.