16.08.1912
Neðri deild: -1. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 803 í B-deild Alþingistíðinda. (1238)

84. mál, samningar við Norðmenn

Framsögum. (Guðl.Guðmundsson):

Eins og háttv. deild veit, þá hefir komið fram þingsál.till frá hæstv. ráðherra (H. H.), út af málaleitun frá Noregi um afnám á lögum nr. 27, 11. júlí 1911 um útlend fiskiskip er hafa með sér herpinætur og er jafn vel gefið í skyn, að stjórn Noregs muni ekki ófús á tilhliðrun, hvað viðvíkur tolli á saltkjöti og hestum, ef þau lög væri úr gildi numin. 6. ágúst 1897 lögðu þeir 10 aura toll á hvert kílógram af saltkjöti, þetta gerðu þeir um líkt leyti, sem England setti skorður við því, eða lét banna innflutning á lifandi sauðfé öðruvísi en svo, að því yrði þegar slátrað á fyrstu höfn. Norðmenn munu hafa haldið að innflutningur saltkjöts til Noregs mundi vaxa og hafa þeir því skelt á þessum tolli, sem er sannnefndur ránstollur, hann er hér um bil 1 kr. á 4 kr. virði af kjöti. Fyrst var málaleitun í þá áttina að fá lækkaðan þennan toll, hreyft í íslenzku kaupmannafélagi í Kaupmannahöfn í miðjum Desembermánuði 1897.

Þá var gert ráð fyrir að flutningur saltkjöts héðan til Noregs væri 1 þús. tunnur og þegar hver tunna vegur 112 kílógrömm. Þá mun tollurinn hafa verið nálægt 70 þús. krónur. Þessi málaleitun mætti mikilli mótspyrnu í Noregi og fékk stjórnin þá beint afsvar um nokkra tilhliðrun. Þessu máli hefir verið hreyft síðan, en árangurinn hefir orðið hinu sami. Norskar verzlunarskýrslur. frá árunum 1909 og 1910, segja að innflutningur saltkjöts héðan til Noregs sé 1909 um 700 þús. kílógr. og sömu verzlunarskýrslur segja að innflutningurinn hafi 1910 verið um 570 þús. kíló, þetta bendir nú á, að útflutningur saltkjöts frá oss sé að minka. Árið 1910 var allur útflutningur saltkjöts frá Íslandi 2.300.000 kílógr. svo að rúmur 4. hluti af útfluttu saltkjöti hefir farið til Noregs. Að því er til hestatollsins kemur, þá er hann nú 50 krónur af hverjum íslenzkum hesti. Hvort nokkrar líkur eru til þess, að hestaútflutningur til Noregs muni vaxa þó tollurinn verði afnuminn eða minkaður, get eg ekkert sagt um.

En þegar til þess er litið að hestaútflutningur til útlanda er að minka — hann er nú ekki helmingur eða jafn vel ekki þriðjungur á móti því sem var fyrir fáum árum — og jafn framt litið á það, að í Noregi hefir verið talsverð mótspyrna móti íslenzkum hestum, þá get eg ekki séð, að þessi tollur hafi svo mikla þýðingu fyrir okkur. Það er ekki um þá hagsmuni fyrir Ísland að tefla, sem nokkuð sé leggjandi í sölurnar fyrir.

Hvað snertir það ákvæði sem stendur í lögunum, að Norðmenn megi ekki hafa báta sína úti á landhelgissvæðinu, þá tel eg það ákvæði ekki svo þýðingarmikið, að ekki mætti slaka til ef í móti. kæmi afnám tolls af íslenzku saltkjöti og veruleg lækkun á innflutningsgjaldi af hestum. Aftur á móti sé eg ekki ástæðu til að ívilna um gjöld eða tolla á framleiddri vöru hér í landi, þó framleiðendurnir séu norskir og varan sé flutt út á norskum skipum. Þegar Íslendingum gegndi verst, þá settu þeir toll á þá ísl. vöru, sem landbúnaðurinn hér hefir helst tekjur af, og þegar þannig er að farið, verður eftirleikurinn óvandari.

Eg skal svo ekki fara fleiri orðum um þetta mál. Það er svo vaxið, að fæst orð hafa minsta ábyrgð, og þess vegna hefir nefndin skilað þingsál.till án þess að láta fylgja nefndarálit.

Að öðru leyti má gera ráð fyrir, að stjórnin geri það sem bezt er og heppilegast í þessu máli, en það er auðvitað að vinna sem mest og leggja sem minst í sölurnar.