16.08.1912
Neðri deild: -1. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 805 í B-deild Alþingistíðinda. (1240)

84. mál, samningar við Norðmenn

Bjarni Jónsson:

Það eru aðeins örfáar athugasemdir. Eg er í öllum aðalatriðum samþykkur hv. framsögum. nefndarinnar (G. G.), að eins hygg eg að það sé ekki rétt, sem hann sagði um kjöttollinn, að Norðmenn hafi með honum átt upptökin með því að leggja toll á ísl. vöru. Þeir þykjast altaf eiga hönk upp í bakið á okkur fyrir toll af hvalafurðum, og er kjöttollurinn svar við því.

Hinsvegar er þess að gæta að mót spyrnan móti íslenzkum hestum er að mestu leyti horfin, einkum af því að ekki er unt að þeir geti alið upp íslenzkt hestakyn þar í landi. Það hljóta allir að sjá hversu mikilsvert það er að hafa opinn markað í sem flestum löndum.

Það er í ráði hjá dönskum félögum, sem verzlað hafa með hesta, að gera hring, til þess að ná yfirráðum yfir hestamarkaðinum á Norðurlöndum, og halda niðri verðinu á íslenzkum hestum.

Þar sem það gæti leitt til þess að stjórnin næði samningum við Svía, er ekki svo lítið að leggja upp úr hestatollinum eins og menn gera. Hér getur verið um framtíðartekjur að ræða.

Viðvíkjandi því sem menn leggja til að bjóða Norðmönnum, sýnist mér okkar málum þar með fullvel borgið.

Eg get ekki séð að ástæða sé til að gera lítið úr kjöttollinum, þegar allur helmingur íslenzks kjöts flytst til Noregs um ófyrirsjáanlegan tíma. En hitt er aftur víst að þar í landi er það mjög óvinsælt að gefa eftir þennan toll. Sú stjórn þar í landi, sem að því stuðlaði, myndi því leggja mikið í sölurnar.

Um uppgjöf á lagaákvæðinu um bátana tel eg ekki meira vert en svo, að fullvel sé við unandi ef hitt kemur í móti frá Norðmönnum, og er eg sammála hv. framsögum. nefndarinnar (G. G.) um það, að ekki getur komið til mála að gera stærri tilslakanir.

Það eru að eins þessar athugasemdir, sem eg vildi gera. Eg hefi átt tal við þá menn í Noregi, sem þessum málum ráða, og veit hvert áhugamál þeim er um kjöttollinn, svo að þeir eru jafnvel hræddir um þingsæti sín ef þeir hreyfa afnámi hans.