16.08.1912
Neðri deild: -1. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 813 í B-deild Alþingistíðinda. (1261)

85. mál, strandferðanefnd til að athuga strandferðirnar og Thore-samninginn

Framsögum. meiri hl. (Guðl. Guðmundsson):

Nefndarálitið sem liggur fyrir er allítarlegt. Eg vona að menn hafi kynt sér það, og þá veit eg að þeir hafa séð, að nefndin hefir átt úr vöndu að ráða. Þetta félag, sem samningana gerði árið 1909, Thorefélagið, hefir algerlega gefist upp, og telur sér ekki mögulegt að fullnægja samningunum. Jafnframt telur nefndin, eftir þeim upplýsingum en hún hefir fengið, að það sé ekki til neins að halda samningunum að félaginu, eða heimta skaðabætur fyrir samningsrof, því að þá verður félagið sýnilega gjaldþrota á næsta hausti Eignir félagsins eru og veðsettar, svo að engar líkur eru til að skaðabætur fengjust, jafnvel þótt þeirra væri krafist.

Hins vegar telur félagið líklegt að það geti haldið uppi ferðum milli landa um eitt ár enn, ef það væri losað við strandferðirnar og Hamborgarferðirnar. Það getur haft talsverða þýðingu fyrir fargjaldið og farmgjaldið landa á milli, ef félagið getur haldið ferðunum áfram. Þess vegna hefir nefndin komist að þeirri niðurstöðu, að eftir atvikum væri það heppilegast, að gefa stjórninni heimild til að slíta þessa samninga án frekari skilyrða. Auðvitað hefði nefndin gjarna viljað binda það því skilyrði, að félagið héldi áfram hröðu hringferðunum kring um landið, og ferðunum milli Íslands og einhverrar þýzkrar hafnar, Hamborgar eða Lübeck. En eins og sakir standa hefir hún ekki talið það fært, að setja það sem bindandi skilyrði, því að það getur varðað því, að félagið fái ekki þann stuðning til millilandaferðanna, sem það hefir að öðrum kosti von um. Þess vegna telur meiri hluti nefndarinnar varhugavert að setja þau skilyrði, sem minni hlutinn fer fram á í breytingartillögum sínum á þgskj. 272.

Nefndin hefir leitað fyrir sér, hvort mögulegt væri að fá einhverja til að taka að sér strandferðirnar næsta ár. Og til þess að gera það aðgengilegra hefir hún lagt til, að Suðurlandsbáturinn sem alla sína tíð hefir verið mesti ómaginn, verði lagður niður og viðkomustöðum strandbátanna verulega fækkað. En þrátt fyrir þetta hefir nefndin ekki fengið neinar undirtektir úr neinni átt, sem lítandi væri við.

Þess skal getið, að nefndin hefir átt tal við skrifstofustjórann á skrifstofu gufuskipafélagsins danska og hefir hann blátt áfram lýst yfir því, að félagið ætlaði sér ekki að gera nein tilboð, nema það gæti verið þess örugt, þegar frá byrjun, að það gæti haft hag af ferðunum.

Frá norsku félagi, sem hefir haldið uppi ferðum hér síðari árin, hefir nefndinni verið sýnt bréf, þar sem það býðst til að halda uppi ferðum milli Íslands og Noregs, en ekki neinum strandferðum, eins og vitanlegt er.

Mér hefir verið bent á það, af háttv. þm. Borgf. (Kr. J.), að það væri ekki rétt um mælt, er stendur í nefndaráliti meiri hl. á bls. 2, í þeirri málsgrein er byrjar svo: „Hins vegar getur oss eigi dulist það“ o. s. frv. Þar sem tekið er fram, að stjórnin hafi gengið slælega fram í þessu máli, áður en þing kom saman. Hann hefir skýrt mér frá, að hann hafi átt tal við Sameinaða gufuskipafélagið er hann var í Khöfn, og að þessi maður, sem tal átti við nefndina, hafi út af því verið sendur hingað til að tala við þingið. Þetta var nefndinni ókunnugt. Maðurinn gat þess alls ekki, að hann hefði komið hingað eftir tilmælum ráðherra. Eg vildi taka þetta fram vegna þess, að þó að þetta kunni að vera ómaklega mælt um stjórnina, þá er nefndin vítalaus, þar sem henni var ókunnur þessi undirbúningur þegar nefndarálitið var skrifað.

Þetta horfir þá svo við, að félagið sem hefir haft strandferðirnar á hendi er algerlega úr sögunni hvað það snertir, og ómögulegt að fá annað félag til að taka þær að sér. Að landssjóður eða landstjórnin fari að leigja eða kaupa skip til ferðanna, telur meiri hluti nefndarinnar hið mesta óráð, enda er eins og stendur engin lagaleg heimild til slíks, og fjárveitingin til að standast þann kostnað sem af því leiðir, sem eg sé að minni hlutinn hefir borið fram tillögu um, er ólíkleg til að geta gengið fram á þessu þingi. Hvað er þá fyrir dyrum? Í raun og veru það eitt að 1913 verði engar strandferðir. Og það er mín persónulega skoðun og annars manns í nefndinni, að engin ástæða sé til að harma það þótt þær ferðir legðust niður, þangað til Íslendingar sjálfir rakna svo við, að þeir stofna innlent gufuskipafélag, því að þá væru frekar líkur að til strandferðirnar gætu borið sig. Það er skiljanlegt að útlend félög með útlendar skipshafnir geti aldrei rekið þessar strandferðir svo, að þær kosti ekki ærið fé. Aftur á móti er reynzla fyrir því, að íslenzk skip bera sig sæmilega, þó að útlendu félögin tapi 50—60 þús. kr. á ári, auk þess sem þau fá 40 upp í 60 þús. kr. úr landssjóði.

Meiri hluti nefndarinnar hefir samt sem áður viljað að stjórninni væri heimilað að leita fyrir sér um samninga um strandferðir 1913, og að hún mætti verja til þess því fé sem til þess þarf. En ef viðkomustöðum strandbátanna verður fækkað, Suðurlandsbáturinn lagður niður og Hamborgarferðirnar sömuleiðis telur meiri hlutinn að 40 þús. kr. mundu nægja. Enda virðist það líklegt, ef það er rétt sem Thorefélagið sálaða heldur fram, að það hafi tapað 30 þús. kr. á Suðurlandsbátnum, og 10—12 þús. á Hamborgarferðunum. Eg býst við, að við 2. umræðu komi fram breyt.till. við þessa þgsál.till. nefndarinnar. Eg hefi frétt að von sé á breyt.till. frá hæstv. ráðherra, og hefir hann skýrt nefndinni frá hvað þær hafa inni að halda. Býst eg við að þeim verði hreyft við þessa umræðu en ekki bornar fram í ákveðnu formi fyr en við næstu umræðu. Eg sé ekki ástæðu til að tala ítarlega um málið við þessa fyrri umræðu, en vona að það verði látið ganga til síðari umr.