16.08.1912
Neðri deild: -1. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 824 í B-deild Alþingistíðinda. (1265)

85. mál, strandferðanefnd til að athuga strandferðirnar og Thore-samninginn

Þorleifur Jónsson:

Hér er vafalaust úr vöndu máli að ráða. Það er því miður ekki útlit fyrir, að þetta þing beri gæfu til að ráða fram úr mörgum vandamálum, en talsvert væri þó í það varið ef það gæti ráðið þessu máli sómasamlega til lykta. Allir vita hversu ómissandi strandferðirnar eru okkur, enda eru kröfurnar um þær alt af að verða háværari, eftir því sem menn hafa lært að nota þær betur. Ef þingið kipti þeim í burtu þá er eg hræddur um að landsmenn mundu spyrja: Til hvers fóru þessir menn til Reykjavíkur til að sitja þar í 6 vikur? Hver er starfi þeirra. Eg held ekki að hægt sé að benda á neitt annað af gerðum þingsins, sem geti vegið í móti því, ef það fellir í burtu strandferðirnar. Allir vita, að ef þeim verður kipt í burtu, þó ekki væri nema í eitt ár, þá væri fótum kipt undan mörgum framfarafyrirtækjum í landinu. Því að strandferðirnar hafa átt mikinn þátt í að efla framkvæmdir og framfarir þjóðarinnar. Þær hafa gert það að verkum, að verzlunin hefir orðið fjörugri, að afurðir landsins hafa komist í hærra verð, að sjómenn hafa betur getað stundað fiskveiðarnar og þær hafa yfirleitt átt góðan þátt í að styrkja atvinnuvegi landsmanna. Eg mundi því telja mjög illa farið, ef þingið gerði ekki einhverja ráðstöfun til að strandferðirnar gætu haldið áfrara. Það má vera að rétt sé, að viðkomustaðir bátanna hafi verið of margir á seinni árum. Það er vitanlega engin hæfa að láta þá fara inn á hvern vog, þar sem flutningurinn er ekki meiri en 1—2 bréfspjöld, eða á staði þar sem fussað er og sveiað við þeim; ferðirnar eru sannarlega of dýrar til þess. En það er hægurinn hjá að fækka viðkomustöðunum, láta bátana koma á þá staði að eins, þar sem von er um viðskifti. Ef svo væri gert þá mundu ferðirnar sennilega borga sig og þá mætti framkvæma hugmynd minni hl. nefndarinnar, um að landið tæki að sér ferðirnar. Og ferðirnar mundu bera sig enn betur, ef báðir bátarnir væru látnir fara hraðar ferðir kringum landið, eins og annar þeirra hefir gert hingað til, því þær bera sig bezt.

Eg vil geta þess, að mér þykir undarlegt að Thorefélagið skuli telja Suðurlandsbátinn mesta ómagann. Hann hefir altaf haft mikið að starfa, hefir verið fullur af vörum í hverri ferð. Hann hefir haft lítið af fólksflutningi, en það kemur til af því, að káetuplássið í honum er svo lítið. En sannleikurinn er sá, að það er ekki réttlátt að reikna Suðurlandsbátnum að eins 1/3 af fraktinni, þegar hann tekur við vörum af öðrum skipum félagsins á stærri viðkomustöðum, ekki sízt þar sem óvíst er hvort vörurnar hefðu nokkurntíma verið sendar af stað, ef hann hefði ekki verið í ferðum.

Eg get ekki séð að ráð minni hl, að landið kaupi bátana, sé neitt glæfraráð. Það er að mínu áliti svo langt frá því að þeir séu lélegir, að eg tel þá einmitt þá heppilegustu báta, sem við höfum haft í strandferðum. Það má vera að aðrir heppilegri bjóðist í framtíðinni, en þeir verða líka vafalaust dýrari.

Eg heyrði á hv. 2 þm. S. Múl. (J.Ó.) að von væri um að innlent félag verði stofnað til að reka strandferðirnar, og finst mér þá því fremur ástæða til að kaupa bátana, svo að því félagi gefist kostur á að eignast góð samgöngufæri með tímanum. Eg tel rétt að landssjóður afhendi því bátana, jafnvel þó svo færi, að hann hefði ekki skaða á þeim, því það gæti verið vafstur fyrir landið að reka strandferðirnar, og væri réttara að þær væru í höndum innlends félags ef það verður stofnað. Þótt eg hafi fundið að úrræðaleysi meiri hl. nefndarinnar, þá verð eg þó að geta þess, að eg er henni þakklátur fyrir að hún leggur það til í áliti sínu, að skipið sem fer frá Reykjavík til Akureyrar, komi við á Hornafirði. Enda hlyti það að stafa af ókunnugleik, ef sá staður væri sviftur strandferðum. Eins og mönnum er kunnugt er 38 þús. kr. styrkur veittur til flóabáta á ári hverju, 12 þús. til Faxaflóabátsins, aðrar 12 þús. til Eyjafjarðarbátsins, hitt til Breiðafjarðar- og Ísafjarðarbátanna. Á Austurlandi er engum slíkum bátum til að dreyfa, svo að á smærri hafnir þar koma engin önnur skip en strandferðaskipin. Á Hornafjörð kemur bókstaflega talað ekkert skip fyrir utan strandferðabátinn, neina hvað trollarar hafa komið þar inn og einstöku sinnum Spítalaskipið franska. En hins vegar hefir Perwie gengið svo vel, að hún hefir komist inn á Hornafjörð í hverri ferð og aldrei taflst neitt þar. Skipstjórinn á Perwie segir að það sé ein sú bezta höfn.

Á Hornafirði er mjög mikið að gera fyrir bátinn, því að verzlanirnar fá allar vörur sínar með honum. Þangað eru fluttar allar lífsnauðsynjar heils sýslufélags, og útfrá honum flytjast allar afurðir þess. Árið 1911 nam sú fragt sem borguð var á Hornafirði af aðfluttum og útfluttum vörum rúmum 8 þús. kr og er það ekki lítið á smástað. Til að sýna hve mikill áhugi er í sýslunni á samgöngunum skal eg benda á það, að hún borgar manni 200 kr. á ári til að greiða fyrir innsiglingu skipa, halda við merkjum, leiðbeina skipum o. s. frv.

Það sem eg hefi að athuga við tillögu nefndarinnar er, að hún leggur til, að Austurlandsbáturinn komi að eins við í tveim, þrem ferðum á Hornafirði. Hann þyrfti að koma þar við í 4—5 ferðum á sumri á hvorri leið. Eg get bent á það, að nú er farið að senda stórgripi með hverri ferð til Reykjavíkur og Austurlands, og er það ekki all lítil fragt ef sendir eru t. d. 10 til 20 gripir í ferð, þar sem borgaðar eru 10 kr. fyrir hvern.

Eg er hræddur um að úrræðin með strandferðirnar verði lítil, ef tillaga minnihlutans verður ekki samþykt, því að stjórnin nær varla samningum um hentugar ferðir fyrir nýjár, ekki sízt þar sem Sameinaðafélagið gefur enga von um að það vilji taka að sér ferðirnar. Enda var heldur ekki mikil ánægja meðal landsmanna með ferðirnar, meðan það félag hafði þær á hendi, og varla verður það greiðara í vöfum nú, þegar svona stendur á, þó að það fengist til að taka þær að sér. Eg mun því greiða atkvæði með till. minni hl., því eg álít það ekkert glæfraráð að kaupa bátana um sinn, með það fyrir augum, að láta þá aftur af hendi við innlent félag þegar það verður stofnað.