16.08.1912
Neðri deild: -1. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 828 í B-deild Alþingistíðinda. (1266)

85. mál, strandferðanefnd til að athuga strandferðirnar og Thore-samninginn

Bjarni Jónsson:

Eg vil fyrst láta þess getið réttlætisins vegna, að það sem nú er orðið í samgöngumálinu, hefir borið af núvererandi þm. Barð. (B. J.) þau ámæli, er hann fekk fyrir samninginn við Thorefélagið, þar sem það er nú komið á daginn að hann hefir verið gerður of mikið landinu í hag en félaginu í óhag, svo það sér sér ekki lengur fært að halda hann. Það er réttlætisskylda að kannast við þetta.

Þá mun eg hverfa að málinu sjálfu, og dreg eg engar dulur á það, að eg er fullkomlega sammála minni hluta nefndarinnar um það hvað gera beri. Mér virðist einmitt nú hentugur tími til að byrja á þeirri stóru vinnu sem fyrir okkur liggur, að taka í eigin hendur samgöngurnar, en fullkomið vald yfir þeim fáum við ekki fyr en við eignumst sjálfir skipin. Og það vil og segja að hvað sem gert er til að hlaða undir eitt einasta félag, með því að semja við það og styrkja það ár eftir ár, er gert móti velferð þjóðarinnar og er þröskuldur í vegi fyrir því að þetta stórmál gangi fram. Eg vil því ekki semja við neitt félag, heldur taka tillögur minni hlutans. En allra síst vil eg semja við Sameinaðafélagið, það félagið sem áður er rikast hér í landi. Eg vildi heldur semja við norsk eða ensk félög og trúi eg því ekki að óreyndu að þau séu ófús að taka að sér ferðirnar fyrir sama styrk. Eg þarf ekki að benda á það hversu afarmargt mælir með því að við semjum ekki við Sameinaðafélagið heldur stígum nú fyrsta sporið í þá átt að taka samgöngurnar í eigin hendur. Allir verzlunarvegir eru bundnir við endastöðvar samgangnanna. Við fáum ekki eðlilega viðskiftavegi meðan hin endastöð samgangna vorra er í Kaupmannahöfn, en þar beldur hún áfram að vera meðan sameinaða félagið hefir samgöngurnar á hendi. Það kemur auk þess í veg fyrir það, að innlent félag verði stofnað til að hafa á hendi samgöngurnar við önnur lönd. Hér í bænum hafa nokkrir menn verið að reyna að stofna félag til að koma á samgöngum við England, en það hefir strandað á því, að þeir hafa skorist úr leik sem vandabundnastir eru þessu félagi. Ef menn bera fram þá mótbáru gegn till. minni hlutans að ekki sé fé til, þá er hún alveg út í loftið. Hér flóir næstum út úr af tekjufrumvörpum, og er það matvendni einni að kenna ef menn vilja ekki hagnýta neina af þeim leiðum til að afla landinu nægilegs fjár, sem stungið er upp á með þeim.

Það er og sannast frá að segja að skipafélögin taka svo mikið gjald af mönnum fyrir fæði, að það hlýtur að vera þeim beinn gróði að hafa fólk um borð. Raunar er það engin frágangssök að hækka gjaldið á betri skipunum, en hitt finst mér landsskömm með undanþágu á landsmönnum. Þeir sem þá ekki vildu fara með dýru skipunum geta þá farið með hinum ódýru. Það er mjög óviðfeldið að hafa annað verð fyrir útlendinga. Til dæmis Vestur-Íslendingar, sem hingað koma, þeir eyða miklu fé, þó þeir annars kunni að vera hér aufúsugestir; virðist það leitt að þurfa að leita í þeirra vasa og leyfa þeim ekki að njóta jafnréttis. Get eg sagt eitt dæmi um slíkan ójöfnuð frá því er eg var leiðtogi útlendra ferðamanna hér, við fengum gistingu á bæ einum og er borga átti þá varð hver útlendingur að greiða 4 kr. nóttina. eg 2 kr. og innlendir ferðamenn 1 kr.

Vil eg svo bæta því við að eg mun með atkvæði mínu fylgja minni hlutanum úr nefndinni.