16.08.1912
Neðri deild: -1. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 830 í B-deild Alþingistíðinda. (1267)

85. mál, strandferðanefnd til að athuga strandferðirnar og Thore-samninginn

Framsögum. minni hlutans (Jón Ólafsson); Herra forseti! Hv. þm. V.-Ísf. (M. Ó.) sagði að bátarnir væru óhentugri en Skálholt og Hólar hefðu verið og rúmið væri miklu minna. Það getur verið að stundum sé ekki alveg nægilegt rúm fyrir fólk um borð, og taka þeir þó fleira fólk en Hólar eða Skálholt gerðu; en aftur á móti veit eg ekki til þess, að nokkurntíma hafi skort farmrúm á bátum þessum. Viðvíkjandi br.till. á þgskj. 212, 1. a, um að skip þau, er Thorefélagið mun hafa til millilandaferða skreppi, þegar þau eru stödd í Höfn milli ferða, nokkrum sinnum til Lübeck á Þýzkalandi, eftir ákvörðunum stjórnarráðsins, þá ættu allir að geta verið nefndri br.till. samþykkir, því menn vita að það mundi koma sér einkar illa fyrir íslenzka kaupmenn, að ferðir til Þýzkalands legðust alveg niður. En Lübeck liggur mjög vel við vöruflutningum alstaðar að af Þýzkalandi og er ekki nema 12 tíma ferð þangað frá Kaupmannahöfn. Í gær er „Sterling“ kom, átti eg tal um þessar ferðir við Nielsen skipherra og lét hann í ljósi við mig að félagið (Thore) mundi ekkert hafa á móti því að fara þessar ferðir.

Annars vildi eg bara vekja athygli hinna háttv. deildarmanna á því að þeir geta allir vel greitt atkvæði sitt með þessari tillögu.