21.08.1912
Neðri deild: -1. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 832 í B-deild Alþingistíðinda. (1269)

85. mál, strandferðanefnd til að athuga strandferðirnar og Thore-samninginn

Framsögum. meiri hl. (Guðl. Guðmundsson):

Meiri hluti nefndarinnar hefir komið fram með breyttill. á þgskj. 305, er miða að því sumpart að skýra tillöguna, þannig að stjórnarráðið fái nánara tiltekin þau skilyrði, sem það geti sett Thorefélaginu, ef til kæmi að það yrði leyst frá samningnum. Og er þá það gert að skilyrði, að hafðir verði viðkomustaðir í nokkrum ferðum í Norður-Þýzkalandi og helzt í Lübeck. Ennfremur er lagt til, að það verði sett sem skilyrði fyrir samningsslitum, að félagið gefi stjórninni kost á að kaupa gufuskipin Austra og Vestra.

Frá minni hlutanum er brtill. á þskj. 272 í tveim liðum. Nú hefir minni hl. lýst yfir því, að fyrri liður till. væri tekin aftur og er þá brtill. á þskj. 253 sjálffallin. Aftur á móti heldur minni hlutinn fast við 2. lið, sem þá ber að skoða sem brtill. við 2. lið meiri hlutans á þskj. 305.

Loks er brtill. frá hv. þm. V.-Ísf. (M. Ó.) á þgskj. 386, sem lýtur að því að ákveða, hvert hámark stjórninni skuli heimilt að nálgast í samningum um strandferðir næsta ár, ?: 60 þúsund kr. Það er heldur þýðingarlítið að setja þessi takmörk og virðist ekki heppilegra að ákveða heimildina á annan veg en gert er í tillögum meiri hlutans, ?: að heimildin hljóði upp á rúm 40 þús. kr.

Nefndin áleit að fækka mætti viðkomustöðunum og mætti því komast af með minna fé en nú er ætlað til strandferða.

Brtill. á þskj. 263 eru samhljóða br.till. á þskj. 272, og þarf eg ekki að fara nánara út í það.

Hæstv. ráðh. (H. H.) minnist á það um daginn, að Sameinaða félagið, vildi fá breytingar á farþegataxtanum og fyrir þá ívilnun taka að sér ferðirnar fyrir ekki mjög hátt verð.

Mér skilst, að til standi, að skipin verði stærri og vandaðri, en jafnframt hækki farþegagjaldið. Um þetta atriði finst mér ekki þörf að setja inn í till. nokkur skilyrði. Stjórninni er heimilt að semja um þetta atriði, og það kemur í rauninni ekki Alþingi við.

Að svo mæltu vænti eg að brtill á þskj. 305 verði samþyktar.