21.08.1912
Neðri deild: -1. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 835 í B-deild Alþingistíðinda. (1275)

85. mál, strandferðanefnd til að athuga strandferðirnar og Thore-samninginn

Sigurður Sigurðsson:

Eg vil geta þess í sambandi við þessa tillögu, að sýslunefndirnar í Árnessýslu og Rangárvallasýslu hafa skrifað Alþingi bréf þess efnis, að ef auðið yrði kjósi þær, að komið verði á mótorbátasambandi milli ýmsra staða austan fjalls og Reykjavíkur.

Út af þessari ósk sýslnanna austan fjalls, höfum við þingmenn þessara kjördæma skrifað nefndinni, sem kosin var á öndverðu þingi í þetta mál, og beiðst þess, að þessi ósk eða tillaga yrði tekin til greina.

Þætti mér því mikils um vert að fá að heyra frá formanni nefndarinnar eða framsögumanni hennar, hvernig nefndin hefir tekið þessari beiðni.

Þegar gengið verður til atkvæða óska eg að breytingartillagan á þgskj. 315 verði borin upp í tvennu lagi, a-liðurinn sér og b-liðurinn sér, því að eg er með a-liðnum en ekki b-liðnum. Eg lít svo á að það sé engin ástæða til að gefa stjórninni undir fótinn með að halda sér til þessara ákveðnu báta, ef um kaup á skipi eða skipum væri að ræða til strandferða eða siglinga. Eg þori að fullyrða, að þessi umræddu skip, „Austri“ og „Vestri“ geta ekki fullnægt þörfum vorum eins og stendur, auk heldur í framtíðinni, og væri því mesta óráð að kaupa þá.

Af þessum ástæðum óska eg að breytingartillagan sé borin upp í tvennu lagi.