20.08.1912
Neðri deild: -1. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 850 í B-deild Alþingistíðinda. (1289)

90. mál, búnaðarfélög

Sigurður Sigurðsson:

Eg verð því miður að mæla móti þessari tillögu. Eg get að vísu kannast við, að mikil sanngirni mælir með að þessi undanþága væri leyfð. En ef það verður gert, þá er eg viss um að aðrir landshlutar koma á eftir með líkar beiðnir.

Þó örðugt sé að slétta og græða út tún á Vesturlandi, þá gæti eg nefnt mörg önnur héruð á Íslandi sem líkt er ástatt um, t. d. Austfirði. Ekki er betra þar hvað grjót snertir. Og fleiri sveitir mætti nefna, þar sem jarðvegurinn er jafn grýttur og á Vestfjörðum, og engu betri til notkunar en þar, svo sem á Melrakkasléttu og Langanesi í Norður-Þingeyjarsýslu, Öræfum í Austur-Skaftafellssýslu, Þingvallasveit í Árnessýslu, Skorradal í Borgarfirði, á Snæfellsnesi og víðar.

Ef tillagan yrði samþykt, mundi einnig leiða af því töluvert ósamræmi í skýrslunum og mundi það auka stjórnarráðinu mikla erfiðleika, við útreikninginn á þeim.

Af þessum og fleiri ástæðum er eg á móti þessari þingsályktunartillögu og óska helst að hún verði feld.