22.08.1912
Neðri deild: -1. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 854 í B-deild Alþingistíðinda. (1297)

92. mál, líftryggingarfélög

Flutn.m. (Bjarni Jónsson):

Eg hefi ætíð álitið, og álít enn, að það sé þýðingarmikið fyrir landið, að sem minst fé fari út úr því og að sem flestir sjóðir séu innlendir, og hygg eg þurfi ekki að færa ástæður fyrir því hér. Hitt er spurningin, á hvern hátt það er framkvæmanlegt.

Til þess að sjá það, hvort lífsábyrgðarsjóður gæti borið sig hér á landi, vantar tilfinnanlega þær skýrslur, sem hér er farið fram á í þessari þingsál.till. að stjórnin útvegi. Skýrslur þær eru helzt um það, er nú skal greina:

a. Hve margt fólk hér á landi sé trygt í hverju félagi, og á hvaða aldri það sé.

b. Hvernig líftryggingunum sé háttað (lífstíðartrygging eða til vissra ára).

c. Hve háar upphæðirnar séu í hverjum flokki líftrygginganna.

d. Hve há iðgjöld séu greidd í hverjum flokki.

e. Hve mikinn ágóða („Bonus“) félögin gefi.

f. Hve margar dánarkröfur hafi orðið til jafnaðar á ári í síðastliðin 10 ár, og á hvaða aldri dána fólkið hafi verið.

g. Hvernig líftrygða fólkið hafi staðið í skilum.

h. Hvað félögin hafi gert til þess að fá fólkið til að líftryggja sig.

Þetta eru nú aðalatriðin, og treysti eg stjórninni til þess að afla sér upplýsinga um þetta fyrir næsta þing, og þá ef til vill að leggja fram frv. þar að lútandi, og bið svo háttv. deild að samþ. þessa þingsályktunartillögu.