22.08.1912
Neðri deild: -1. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 856 í B-deild Alþingistíðinda. (1299)

74. mál, aðstoðarmenn héraðsdómara í sjómálum

Eg valdi því þá leið, að fela stjórninni að íhuga málið til næsta þings og leggja þá fyrir það frv. um þetta efni, og gæti hún þá í því valið um tvo vegu:

Annar vegurinn sá, að stofna sérstaka dómstóla, er færu með öll svo kölluð sjómál, jafnt opinber mál sem einkamál, svo sem gerist með Dönum eftir nýnefndum lögum. Hinn vegurinn er sá, að stofna ekki sérstaka dómstóla, heldur gefa mönnum kost á sérfróðri aðstoð við þau dómarastörf, er sérfróðleikur útheimtist helzt til, svo sem við yfirheyrslur vitna og annara manna út af sjósköðum eða við dómfestingu mats- og skoðunar gerða. Þessu mætti svo koma fyrir annaðhvort þannig, að aðilum væri leyfilegt að krefjast þess, að sérfróðir menn væru viðhafðir, eða þá dómara að taka þá sér til aðstoðar. Þó mun réttara að aðilar ráði því, en ekki dómari, hvenær sérfróðir menn væru notaðir. — En hvor leiðin sem farin yrði, hvort heldur stofnaðir sérstakir dómstólar eða heimiluð sérfróð aðstoð við tiltekin dómaraverk, þá ætti að fá annaðhvort sjómannafélögum eða þá sveitastjórnum rétt til að stinga upp á hinum sérfróðu mönnum. Í Danmörku stinga amtsráðin upp á mönnunum; hér mundu það verða sýslunefndir og bæjarstjórnir. Stjórnarráðið skipaði svo þá mennina, er það teldi hæfasta.

Eg vona nú að hv. deild taki vel í það, að fela stjórninni að íhuga þetta fyrir næsta þing og leggja þá það til, sem henni þykir tiltækilegast

Skal eg svo ekki fara um það fleiri orðum.