27.07.1912
Efri deild: 10. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 11 í B-deild Alþingistíðinda. (13)

4. mál, breyting á alþingistíma

Sigurður Stefánsson:

Það má nú svo segja um frumvarp þetta, að það sje eitt af hinu undarlega, sem skeður, nú á þessum síðustu tímum. — Það er ekki meira en 7 ára tími, síðan er á þinginu 1905 var samþ. með miklum meiri hluta atkvæða, að færa þingtímann til vetrarins, og það með stórkostlegum meiri hluta beggja deilda. Þá var málið flutt af 5 bændum — jeg tel mig heyra þeim flokki til í þessu máli hjer í þessari háttv. deild; en það voru þeir hv. 1. þm. Húnvetninga, (Jón Jakobsson), núverandi þm. Strandamanna, þm. Barðstrendinga (Sigurður Jensson), hv. þm. Sunnmýlinga (Guttormur Vigfússon) og jeg.

Breytingin var samþ. hjer í deildinni með 11 samhlj. atkvæðum, en í neðri deild með 16 atkv. — Ekkert einasta atkvæði í öllu þinginu var á móti. —

Jeg þarf ekki að endurtaka þær ástæður, sem þá voru fram fluttar fyrir breytingunn. En höfuðástæðurnar voru þó þrjár: Fyrsta og veigamesta ástæðan var sú, að bændur ættu örðugast með að vera að heiman um sumartímann.

Önnur sú, að kaupgjald þingmanna, sbr. tilsk. frá 1843 —: 3 ríkisdalir á dag væri nú orðið óhæfilega lágt um hábjargræðistíma sveitabænda og þeirra annara þingmanna, er utan Reykjavíkur byggju. Og loks hin þriðja ástæðan, að þótt þing hefði hjer á landi frá alda öðli verið háð um sumar, þá væri sú ástæða með öllu horfin, sökum bættra samgangna á sjó og landi.

Jeg vil nú leyfa mjer að beina þeirri spurningu til hinna hv. þingmanna, hvort ástæður þessar — hafi þær verið góðar og gildar árið 1905, — muni þá ekki vera það enn í dag? Hvort atvinnuvegir og lífsskilyrði landsmanna hafi breyzt svo mjög á þessum síðustu 7 árum, að nýrrar breytingar sje þörf þess vegna?

Það er nú orðið alsiða, að vitna í vilja kjósenda, og jeg skal játa, að ef um margar eða háværar raddir úr þeirri átt hefði verið að ræða, þá hefði verið nokkuð öðru máli að gegna. En það hefur ekki komið ein einasta rödd frá kjósendum um þetta mál, svo að hjer er því als ekki til að dreifa, að breytingin frá 1905 hafi vakið óhug eða óánægju almennings, — það er öðru nær. —

Jeg verð að segja það, að jeg skil ekki vitund í þeim hv. þingmönnum, eða öðrum mönnum, er vilja halda því fram í fullri alvöru, að bændur eigi hægra með að vera burtu frá heimilum sínum um sumartímann, en að vetrarlaginu. — Jú! jeg gæti skilið það með einu móti, sem sje ef sú væri breyting á orðin hjer á landi, að veturinn væri orðinn að aðalbjargræðistímanum. — Ef Þorrinn og Góan væru orðin hentugri tímar til heyfanganna, en Sólmánuður og Heyannir. —

Vjer kvörtum oft yfir því, hve sumrin okkar sjeu stutt og bjargræðistími bóndans stuttur, og bóndanum veitir sannarlega ekki af því, að vera óskiftur þennan skamma bjargræðistíma, til þess að geta aflað sjer heyanna, sem eru undirstaða undir landbúnaðinum og framförum hans.

Jeg verð að játa það hreinskilnislega, að síðan 1905 hef jeg ekki orðið var við eina einustu ástæðu fyrir þessum þingtímaflutningi til sumarsins, er á nokkurn hátt sje takandi til greina. Og þá eru ekki ástæður stjórnarinnar fyrir frumvarpinu sjerlega veigamiklar; þær eru sem sje þær að þingtíminn hafi ekki reynzt hentugur. En ekki minst einu orði á það, að hverju leyti hann hefur verið óhentugur. Að hinni kem eg síðar.

Jeg þykist skilja, að stjórnin hafi haft stóran vilja á, að koma frv. þessu í framkvæmd, en röksemdirnar ekki að sama skapi. —

Þá hef jeg heyrt því barið við, að um vetrartímann gæti komið fyrir heyleysi hjá bændum, og þessvegna yrðu þeir að vera heima, til þess að bjarga skepnum sínum frá hordauða, en mikið hefði jeg viljað gefa til þess, að slík ástæða hefði aldrei komið inn í þingsalina. Væri búskap bænda alment ekki betur farið en svo, að þeir ekki mættu missa sig að heiman vegna þess, þá væri lítil eftirsjón að þeim á þinginu.

Heyleysingjar og horkongar eiga betur heima í öðru húsi en í þinghúsinu.

Ein ástæðan enn, sem fram er borin til varnar þessu frumvarpi, er sú, að vetrarþing yrðu landsjóðnum dýrari, og jeg skal játa, að sú ástæða er á nokkrum rökum bygð. En þess ber þó vel að gæta, að samgöngum okkar er nú komið í það horf, að flestir þingmenn geta komið og farið með gufuskipum, og þær ferðir eru með svipuðum kostnaði, hvort sem er að vetrinum eða sumrinu. Landferðir verða auðvitað nokkru dýrari að vetrinum, en það fje, sem landssjóður sparar með sumarþinghaldi, er aðallega tekið úr vasa þingmanna þeirra, er utan Reykjavíkur búa, og sá gróði landsjóðs getur varla talizt sæmilegur.

Þess ber líka að gæta, að hjer er eigi einungis um bændur eina að ræða. Sumir embættismenn utan Reykjavíkur eiga engan tíma ársins eins örðugt með að vera að heiman eins og um sumartímann, þar sem vetrartíminn er þeim langhentugastur, eins og t. d. sýslumönnum; þeir eiga að vera búnir að skila öllum reikningum sínum í febrmán. áður en þingið byrjar. Jeg gæti líka nefnt ýmsa aðra fjesýslumenn. Kaupmönnum eru vetrarþing líka áreiðanlega hentugri, þá er þeir að mestu leyti hafa gert upp reikninga sína, og því hafa beztan tíma til þingsetu. Það er að vísu ein stjett manna, nfl. kennarastjettin, sem á örðugra með þingsetu á vetrum.

En jeg get þó bent á, að í þeim stað sem kennarastjettin er fjölmennust (Rvk.) virðist svo, sem henni hafi eigi orðið skotaskuld úr því að hafa fulltrúa á vetrarþingunum. Það hefur kanske stundum valdið dálitlum óþægindum, en venjulega mun kennari hafa getað fært svo til kenslustundir sínar, að eigi hafi orðið verulegur bagi af.

Nokkuð öðru máli er að gegna um kennara úti á landi. Þeir verða venjulegast að fá dýra menn í sinn stað.

Jeg vík þá aftur að annari ástæðunni: kaupgjaldi þingmanna; þó það sje óheyrilega lágt, þá getur það þó heldur gengið um vetrartímann; um sumartímann er það óhæfilega lágt. Árið 1845, er alþingi var endurreist, var þetta 3 ríkisdala kaup afar hátt, er tekið var tillit til þess, í hvaða verði peningar þá voru.

Og þetta kaup var nokkurn veginn viðunandi fram að 1870.

Jeg skal til fróðleiks geta þess, að á árunum 1845—49 og enda lengur var verðlagsskráin þannig, að ærin var metin á 7 kr., rúmt þingmanns dagkaup. Smjörið á 16 skildinga (32 aura) og var þá algengt, að beztu kaupamenn fengu 20? af smjöri um vikuna, eða 6 kr. og 40 aura; þingmaðurinn gat þá því nær borgað kaupamanni sínum vikukaup með einu dagkaupi sínu.

Það er ekki ofmælt, að peningar sjeu nú fullum 2/3 hlutum ódýrari en þá var.

Nú dettur engum í hug að bjóða kaupamanni 6 kr. um vikuna, heldur 15—18—24 krónur.

Nú tekur vikukaup kaupamannsins upp hálf vikulaun þingmanns. Dagpeningar þingmanns hinn lögákveðna þingtíma eru kr. 336, og hvað á hann nú að borga hjer í Reykjavík fyrir þetta kaup. Fæði 40 kr. á mánuði, húsnæði 30 kr. og sumir jafnvel meira. Þjónustu, þvott og ýmisleg smá útgjöld geri jeg 20 kr. á mánuði.

Kostnaðurinn alls getur því bersýnilega eigi orðið minni en 180 kr. um þingtímann. En svo fylgir í ofanálag sá böggull skammrifi, að bændur utan af landi verða að kaupa afardýra menn í sinn stað, á meðan þeir sitja hjer á þingi, sá kostnaður nemur ekki minna en 144 kr. um þingtímann. Samkvæmt þessum reikningi hefur því bóndinn einar 12 kr. afgangs með því að viðhafa hinn mesta, já meira að segja næstum of mikinn sparnað samkvæmt stöðu sinni, og jeg er viss um, að allur fjöldi þingmanna utan Reykjavíkur hefur beint peningatjón af þingförinni, þótt allur sparnaður sje við hafður.

Jeg veit ekki, hvað sýslumenn og kaupmenn þurfa að fá dýra menn í stað sinn, en jeg veit, hvað jeg þarf að borga sjálfur fyrir stjórn á búi mínu í fjarveru minni á þingi um sumartímann, er jeg hef orðið að taka ráðsmann, auk þess sem sá bagi verður ekki metinn til peninga, sem þrátt fyrir þennan tilkostnað getur leitt af fjarveru bóndans um hábjargræðistímann.

Um veturinn er hins vegar óþarfi fyrir hvern bónda að taka sjer ráðsmann, ef hann hefur búið sig undir veturinn með nokkurn veginn fyrirhyggju. Jeg ætlast alls ekki til, að þingmenskan verði fjárplógur fyrir nokkurn mann, en hún má heldur ekki vera tap og fjárútlát fyrir þingmanninn. Reyndar má segja sem svo, að bændur og atvinnurekendur utan Reykjavíkur geti látið vera að bjóða sig fram til þings, en það getur sannarlega ekki talizt holt fyrir þjóðfjelagið, að einni stjett í landinu sje gert ómögulegt, að taka þátt í löggjafarstarfi þjóðarinnar, ekki sízt, er það kemur niður á bændastjettinni, fjölmennustu stjett landsins, og þeirri stjettinni, sem ber framtíð landsins á herðum sjer.

Því fer fjarri, að jeg telji þingið bezt skipað með tómum bændum; auðvitað fer bezt á, að allar stjettir geti sent þangað fulltrúa sína, og eigi mundi mega telja það gott, að embættismenn einir skipuðu þingið. Mjer finst það lýsa lítilli trú á hinni síauknu mentun í landinu, ef bændur og alþýða manna ætti ekki, er stundir líða, að vera betur fær um að taka þátt í löggjafarstarfi þjóðarinnar, en um langan aldur að undanförnu.

Afleiðingin af færslu þingtímans til sumarsins yrði því sú, að landsmönnum utan Reykjavíkur, er sæti ættu á þingi, mundi fækka að miklum mun, og að Reykjavík mundi skipa flest sætin. Þaðan mundu og hjer eftir sem hingað til verða margir góðir og mikilhæfir þingmenn, en sumir líka, og það að líkindnum fleiri, er ekkert erindi eiga á þing. Hjer á landi er að koma upp lœrður öreigalýður, menn, sem enga atvinnu hafa og eru satt að segja rótarlitlir kvistir í þjóðfélaginu; fyrir þessa menn væru sumarþingin mikill fengur og þeir mundu bjóðast óspart til að fylla sæti bændanna, og teldi jeg það vera ill umskifti.

Rjett er að geta einnar ástœðu til gegn því, að þing sje haldið á veturna, en hún er sú, að ekki muni vera unt að hafa háskólann samtímis og þing stendur yfir, en jeg fæ ekki skilið, að sú ástœða sje veigameiri en hin ástæða stjórnarinnar, er jeg nefndi áður. Alþingishúsið er jafn nógt húsrúm fyrir þingið og háskólann, eins og það var um mörg ár fyrir þingið og bókasafn landsins, sem hefur tekið upp sama húsrúm, sem háskólinn nú hefur.

Jeg held raunar, að ekki muni líða mörg ár, þar til er prófessorahópurinn heimtar nýtt hús fyrir háskólann og þyki salirnir hjer í húsinu ónógir með öllu; jeg játa, að þetta er spá mín, en þó hygg jeg, að þetta muni koma fram innan fárra ára.

Þegar háskólinn var stofnaður, var sagt, að hann mundi ekki kosta okkur neitt til muna, en við skulum sjá, hvort það fer ekki á aðra leið. En úr því að háskólinn er á annað borð stofnaður, tel jeg það vanvirðu að gera hann ekki almennilega úr garði.

Jeg get þess að lokum, að þótt frumv. þetta sje ekki umfangsmikið, legg jeg til, að skipuð verði 3 manna nefnd að lokinni þessari umræðu.