23.08.1912
Neðri deild: -1. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 874 í B-deild Alþingistíðinda. (1314)

97. mál, kosningarlög

Jón Ólafsson:

Herra forseti! Það er meinlegt, hve seint þetta mál kemur fram. Eg býst við að fleirum hafi farið sem mér, að þeir hafi ekki veitt því eftirtekt, og þess vegna sé málið litið athugað af flestum. En í fljótu bragði virðist mér tillögurnar þurfa breytinga við.

Eg er ekki á móti því, að till. verði samþ. um þetta efni, en óska að hver liður þessarar tillögu verði borinn upp fyrir sig.

Ekki þekki eg bréfspjöld sem gegnstungin eru í miðju, en auðvitað mætti gera kjörseðlana þannig.

Vandhæfi er á því, að láta kosningarathöfnina að eins vera fólgna í því að leggja seðlana í kassa, því vel mætti t. d. þar, sem tvímenniskjördæmi eru, stinga 2 seðlum í sama kassa, og gæti kjörstjórn ekki að því gert, því ekki má hún taka fram fyrir hendur kjósenda.

Eg vil benda á það, að í tillögunni ætti að vera heimild fyrir stjórnina til þess að leyfa að nota atkvæðavélar, ef til kæmi.

Ekki felli eg mig við það, að ekki megi telja kjörseðla utan kjördæmis, því sumstaðar, t. d. í Eyjafirði, hagar svo til, að hvergi er kjósendum hægra að vera viðstaddir talninguna en einmitt utan kjördæmis: á Akureyri.

Eg geri þessar bendingar af því till. kom svo seint fram, að eg hafði ekki tækifæri til að gera breytingartillögur. En ef til vill mætti bjarga málinu með því að fella fyrstu 3 liði tillögunnar en samþ. svo tillöguna með 2 hinum síðustu.