22.08.1912
Neðri deild: -1. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 877 í B-deild Alþingistíðinda. (1322)

99. mál, endurgreiðsla á tillagi til símalínu (frá Selfossi til Eyrarbakka og Stokkseyrar)

Flutningsm. (Sigurður Sigurðsson):

Á fjáraukalögunum fyrir árin 1908 og 1909 er svo ákveðið í 3 gr. D, að tillaginu frá Árnessýslu til símalínunnar austur skuli varið til hliðarsímalínunnar frá Selfossi niður á Eyrarbakka og Stokkseyri. Þetta tillag nam 6.000 kr. Þessi hluti símans, niður á Eyrarbakka er notaður mjög mikið, eins og yfir höfuð öll línan austur. Hún er jafnvel notuð meira en flestar línur aðrar, og gefur einnig þar af leiðandi miklar tekjur.

Þess vegna væri fylsta ástæða til að taka þessa hliðarlínu upp í 1. flokk, þó ekki hafi enn tekist að fá því framgengt.

Hins vegar hefir nú línan frá Ölvesá að Garðsauka og til Vestmannaeyja verið tekin upp í 1. flokk.

Fyrst þessari línu, frá Selfossi niður á Eyrarbakka og Stokkseyri, er ekki gert hærra undir höfði, þrátt fyrir það hve arðsöm hún er, þá væri full ástæða til að endurgreiða sýslunni það tillag, sem hún lagði til hennar.

Línan mun hafa kostað um 5.000 kr. og tillagið frá sýslunni var 6.000 kr., eða 1.000 kr. hærra en línan kostaði. En leyfi mér því að fara fram á, að hv. stjórn bæti úr þessari ósanngirni og taki upp í næstu fjárlög ákvæði um, að tillagið skuli endurgreiðast sýslunni, helst alt eða að minsta kosti mikill hluti þess t. d. .4.500 kr, og er þá það sem eftir stendur, 1.500 kr., hér um bil 1/3 hluti af því sem línan kostar.

Til sönnunar því, ’hve miklar tekjur séu af línunni vil eg benda á, að frá því í ágúst í fyrra og til jafnlengdar í ár gaf hún af sér um 4.000 kr.

Eg vona fastlega, að hv. þingmenn og stjórn sjái, að hér er að eins farið fram á það sem réttmætt er og sanngjarnt í alla staði, og taki því málinu vel.

Úr því eg fór að minnast á símamálið, þá vil eg ekki láta hjá líða að minnast á starfrækslu símans yfir höfuð, og þá fyrst og fremst þar austur í sýslum.

Þegar verið er að „byggja línur, byggja hús landshornanna milli“, eins og skáldið kvað, og það með ærnum kostnaði, þá verður stjórn og þing að sjá um, að síminn verði að tilætluðum notum. En á það skortir mjög víða um land, þar sem eg þekki til, og eigi sízt að því er snertir línurnar austur. Ein af ástæðunum til þess er vitanlega sú, að þær eru svo mikið notaðar, og notin hafa mjög aukist, síðan síminn var lagður til Vestmannaeyja. Það sem eg hefi helzt heyrt menn kvarta um í þessu efni, er fyrst og fremst, hve tíminn er stuttur, sem síminn er opinn á, á 3. flokks stöðvum. Þar sem síminn er mikið notaður eru þessar 2 stundir á dag alt of naumur tími. Af því leiðir, að menn verða oft að bíða svo og svo lengi og loks fara burtu án þess að fá sig afgreidda.

Það veitti sannarlega ekki af að 3. flokks stöðvar á línunni austur væru lengur opnar en 2 stundir á dag.

Í öðru lagi er óánægja víða um land út af því, að afgreiðslan á stöðinni hér í Reykjavík sé ekki svo góð sem skyldi. Það má vel vera að ólagið stafi að mestu leyti af því að á símastöðinni hér sé of fátt fólk til að gegna jafn miklu starfi. Og ef svo er, þá er fullkomin ástæða til að taka það til greina og reyna að bæta úr því. Það ganga sögur um það, að á aukastöðvunum út um land sé oft erfitt að ná í samband við Reykjavík og það jafn vel á þeim tíma sem stöðvarnar eru opnar. Það hefir oft komið fyrir að eftir að menn hafa sótt langan veg til þessara aukastöðva, hafa þeir orðið frá að hverfa svo búnir.

Þá skal eg geta þess, að í vetur sem leið lagði símastjóri svo fyrir að aukastöðvar á línunni austur, mættu ekki hringja Reykjavík upp, hvað sem við lægi, nema á þeim tíma sem fyrirskipað er að þær skul vera opnar. Þessu var ekki beitt gagnvart öðrum stöðvum. Þetta kom sér afar illa fyrir menn, og mörgum til stór baga. En símastjóri mun hafa haft það fyrir sér, er hann setti þetta ákvæði, að sambandið við Vestmanneyjar gæti haldist sem bezt, því sú lína hefir svo mikið að gera.

Mér kann nú að vera svarað því, að hvorki símastjóra né stjórninni hafi borist neinar kvartanir til eyrna út af þessu. Það má vel vera að svo sé. En jafn vel þó að menn hafi þagað, er það út af fyrir sig, ekki eindregin sönnun fyrir því að alt sé í bezta lagi. Menn til sveita eru svo þolinmóðir og eiga því heldur ekki að venjast að jafnaði, að kveinstöfum þeirra sé sint. Og án þess að eg vilji lasta símastjórann á nokkur hátt, þá eru menn einurðarminni við útlendinga sem gegna opinberum sýslunum, en innlenda menn. Má vera að útlendingadekrið sem fætt er og fóstrað hér í Reykjavík og höfðingjarnir og „heldri“ dömur bæjarins gera sitt til að halda við, sé farið að berast út um sveitirnar. Þá er það heldur ekki ástæðulaust að menn hafi ekki í fullu tré við útlendinga, ef það er satt sem flogið hefir fyrir um einn útlendan starfsmann hér, sem er í þjónustu landsins, að hann ferðist með „pístólu“ upp á vasann og hafi það jafn vel til að ógna mönnum með henni ef ekki fellur alt í ljúfa löð.