13.08.1912
Neðri deild: -1. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 885 í B-deild Alþingistíðinda. (1337)

72. mál, fyrirspurn um innflutning áfengis

Ráðherrann (H. H.):

Eg vil fyrst lýsa yfir því, að mér er alveg ókunnugt um að fyrirspyrjandi (J. Ó.) hafi farið þess á leit að fá að sjá stjórnarráðsbréfið; að minsta kosti hefir hann ekki nefnt það við mig.

Að því er snertir fyrirspurnina, þá er henni skjótsvarað. Það er spurt hvort stjórnarráðið hafi leyft að flytja hingað á höfnina frá útlöndum áfenga drykki. Stjórnarráðið hefir ekkert slíkt leyfi gefið, og mætti því láta nægja að svara fyrirspurninni með „nei“.

En eg skal nú í stuttu máli leyfa mér að skýra frá málavöxtum. Það, sem hefir gefið tilefni til þessarar fyrirspurnar. er það sem nú skal greina.

Í marzmánuði síðastliðnum skrifaði frakkneski konsúllinn hér ráðherranum og tjáði honum að hér á höfnina væri komið franskt flutningaskip, sem hefði meðferðis 17 uxahöfuð af rauðvíni handa tveimur frönskum fisikskipum, sem voru hér við veiðar, en áttu að fara til Newfoundlands. Þessi skip voru þá ekki hér inni á höfninni, en skipið, sem með vörurnar kom, varð að fara aftur, og spurðist því konsúllinn fyrir um hvað gera skyldi í þessu efni, hvort ekki mætti leggja vínið upp til geymslu í annað skip á höfninni, þangað til skipin sem áttu að fá það, kæmu og tækju það. — Það er nú engin nýlunda að vín sé flutt til afhendingar útlendum botnvörpungum hér við land, og hefir aldrei verið litið svo á, að um væri að ræða innflutning í landið, þar sem það hefir aldrei verið sett hér á land, heldur beint í skipin sem það hefir verið ætlað til neyzlu, og tollur hefir aldrei verið heimtaður af slíku víni. Í þessu tilliti var hér ekki farið fram á neina nýlundu. Að eins var spurningin um hvort þetta kæmi í bága við aðflutningsbannslögin. Stjórnarráðið leit svo á, að í 5. gr. þeirra laga væri þetta heimilað, þar sem hér var ekki farið fram á annað en að geyma um stuttan tíma 17 uxahöfuð af rauðvíni undir umsjón lögreglustjóra. Eftir þessum skilningi svaraði stjórnarráðið að þetta væri heimilt, en tók um leið fraro, að þar með væri ekki veitt nein undantekning frá aðflutningsbannlögunum.

Þessi lagagrein hljóðar svo:

„Skylt er hverjum skipstjóra, er frá útlöndum kemur, að tilkynna lögreglustjóra, um leið og hann sýnir skipsskjölin, hvort hann hafi nokkuð áfengi til flutnings fyrir aðra menn, og þá hve mikið. Hann skal og skýra frá, hvort og hve mikið áfengi hann hafi meðferðis sem skipsforða, en óheimilt skal honum meðan hann er á höfnum inni eða í landhelgi við Ísland, að veita eða selja eða á annan hátt láta af hendi eða leyfa öðrum skipverjum að láta af hendi nokkuð af því áfengi, er til skipsforða er ætlað, til annara manna en þeirra, sem, eru lögskráðir skipverjar.

Skipstjóri er sekur við lög þessi, ef hann brýtur það, er nú var mælt.

Nú hefir skipstjóri meðferðis áfengi frá útlöndum sem ekki er ætlað til skipsforða, og ekki á að fara til umsjónarmanns áfengiskaupa. og skal lögreglustjóri þá á hinni fyrstu höfn, er skipið kemur til, setja embættisinnsigli sitt á hin aðfluttu áfengisílát og ábyrgist skipstjóri, að innsiglin séu ekki brotin eða úr ílátunum tekið fyr en skipið er farið alfarið burt frá landinu, enda gangi lögreglustjóri úr skugga um það, áður en skipið lætur úr síðustu höfn, að innsigli séu heil og ekkert hafi verið tekið úr ílátunum.“

Þessi lagagrein hljóðar um það, eins og allir sjá, að sama skipið flytji vínföngin bæði á höfnina og burt frá henni aftur. En stjórnarráðið leit svo á að hér væri um fullkomna laga analogi að ræða, þótt vínföngin flyttust í öðrum skipum aftur burt frá landinu, og leyfði þess vegna að þessar 17 ámur af rauðvíni væru lagðar hér upp á höfninni til geymslu undir umsjón og innsigli lögreglustjóra, þangað til þau yrðu flutt út aftur. Samkvæmt þessu var svo farið. 17 ámur rauðvíns lágu hér um þriggja vikna tíma, svo komu skipin inn, sem áttu að nota vínið, og var þeim þá afhent það undir umsjón lögreglustjóra; eftir það sigldi það burt til Nýfundnalands.

Stjórnarráðið er allsendis ókunnugt um að annað vín en þetta hafi verið lagt hér upp til geymslu á höfninni.

Fyrirspyrjandi lagði áherzlu á, með hvaða heimild þetta hafi verið leyft, og er því svarað með því, að það var leyft með þeirri heimild, sem stjórnarráðið áleit felast í 5. gr. aðflutningsbannlaganna.