13.08.1912
Neðri deild: -1. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 888 í B-deild Alþingistíðinda. (1338)

72. mál, fyrirspurn um innflutning áfengis

Fyrirspyrjandi (Jón Ólafsson):

Herra forseti! Maður hefir það eitt upp úr svari hæstv. ráðherra (H. H.), að upplýst er að leyft hefir verið án lagaheimildar að geyma ótolluð vínföng hér á höfninni, því 5. gr. aðflutningsbannlaganna gefur enga heimild til þess og ekki er að ræða um neina analogi heldur.

Það væri gaman að vita, ef hollensk, svensk eða þýzk fiskiskip færu fram á að fá sama leyfi, hvort þau fengju ekki „já“ líka, eða er rétt að neita þeim um það, sem Frökkum er leyft ? Og ef útlendingar fá leyfi til að geyma hér ótolluð vínföng, því þá ekki okkar eigin skip? Það er ólíklegt að landsmenn sjálfir séu ekki eins réttháir eins og útlendingar.

Það er ekki meiri ástæða til að gefa einni þjóð fremur en annari slíkt leyfi, en ef það fer að tíðkast er ég hræddur um að fari að koma glompa á aðflutningsbannlögin.

En hér er framið brot á fleiri lögum en bannlögunum. Það er gengið á rétt þeirra manna, sem lögum samkvæmt hafa rétt til að selja áfengi í landinu. Þeir eiga sanngirniskröfu á því að landssjóður taki toll af víni, sem geymt er á þennan hátt, jafnt og af þeim.