13.08.1912
Neðri deild: -1. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 901 í B-deild Alþingistíðinda. (1349)

72. mál, fyrirspurn um innflutning áfengis

Lárus H. Bjarnason:

Hæstv. ráðh. (H. H.) lýsti yfir því, að sér þætti undarlegt ef deildin ætlaði sér að taka sér dómsvald í lagaspursmálum. Hann hefir ekki altaf verið á þessari skoðun. Ekki langt á að minnast að hann var meðmæltur innsetning gæzlustjóranna í báðum deildum hér um árið, og var það mál þó komið fyrir dómstólana. Annars er hér ekki um beiting „dómsvalds“ að ræða, heldur að eins um upplýsing af hendi Alþingis sem eftirlitsvalds með stjórninni og veit eg ekki hverjum ætti að vera annara um að lögin séu haldin en einmitt Alþingi. Eftir þingræðisreglunni er það eitt aðalverk þingsins að líta eftir framkvæmd laganna, og er því fullkomlega óhætt að samþykkja dagskrána. Orðalagi hennar má gjarnan breyta fyrir mér, ef einhver kann illa við það; mér er það ekkert kappsmál.

Hæstv. ráðh. (H. H.) vildi gera greinarmun í hér umræddu máli á landhelginni og föstu landi. Það er ekki rétt. En hvernig sem á það er litið þá lúta höfn og þurt land sömu lögum í lögum allra þjóða, og þetta vín var þó látið í skip, sem liggur allan ársins hring kyrt í höfn. Hvar væru líka takmörkin ef ekki ætti að miða hér við landhelgislínuna? Hver yrði afleiðingin ef eitt mætti gera á sjó og annað á landi? Þá mætti tylla víndúnk við bryggjurnar eða festa hann við stein í landi, ef dunkurinn bara væri umflotinn af sjó. Nei, það sjá allir að atferli stjórnarinnar verður ekki réttlætt með því að vínið hafi aldrei á land komið. Það er tvímælalaust brot á bókstaf og anda bannlaganna, sérstaklega réttlætir 5. gr. það ekki.

Eg skal lesa hana upp aftur:

„Nú hefir skipstjóri meðferðis áfengi frá útlöndum, sem ekki er ætlað til skipsforða og ekki á að fara til umsjónarmanns áfengiskaupa, og skal lögreglustjóri þá á hinni fyrstu höfn, er skipið kemur til, setja embættisinnsigli sitt á hin aðfluttu áfengisílát og ábyrgist skipstjóri, að innsiglin séu ekki brotin eða úr ílátunum tekið fyr en skipið er farið alfarið burt frá landinu, enda gangi lögreglustjóri úr skugga um það, áður en skipið lætur úr síðustu höfn, að innsigli séu heil og ekkert hafi verið tekið úr ílátunum“.

Þetta ákvæði á að eins við þau tilfelli er sama skip kemur með vínið og fer með það aftur. Eg skil ekki hvernig nokkur getur álitið það hliðstætt (analogt) ef skipin eru tvö, ef annað skip fer með vínið heldur en flutti það hingað. Þá er hitt líka jafnvíst, að tolllögin hafa tvímælalaust verið brotin með þessu, en í dagskránni er ekki lögð svo mikil áherzla á það, vegna þess, að eins og kunnugt er, hefir umboðsstjórnin ávalt verið mjög slök í að beita tolllögunum. Eg veit t. d. að konsúlum hefir verið leyft að hafa hér ótollaðar vörur, og er það auðvitað brot á tolllögunum.

Út af þeim orðum hv. þm. Borgf. (Kr. J.) að hér væri eigi um alment leyfi eða undanþágu að ræða, heldur skilning á lögunum, skal eg geta þess, að auðvitað byggjast allir úrskurðir á skilningi á lögum, og það sem máli skiftir er því, hvort skilningur sá, sem úrskurðurinn er bygður á, er réttur eða rangur. Hitt er þýðingarlaust hvað úrskurðurinn er kallaður, hvort heldur leyfi, undanþága eða hvað. Auðvitað held eg ekki að fyrverandi ráðherra hafi brotið lögin vísvitandi, því að hefði eg álitið það, þá hefði eg lagt til að honum hefði verið stefnt fyrir landsdóm.

Hvort sem bannlögin eru ill eða góð, þá verða þau þó að haldast. Ilt er að aðrir brjóti lög, en lakast fer þó á því, geri stjórnin það. Undanþágu hefði stjórnin getað gert eftir 11. gr. stjórnarskrárinnar, en ekki með öðru móti.

Háttv. þm. S.-Þing. (P. J.) er vorkun þótt hann vilji helzt vera laus við að greiða atkvæði, og þess vil eg geta, að þessi fyrirspurn er kornin frá okkur 7 sem óbreyttum þingmönnm, en ekki sem skattanefndarmönnum.

Háttv. þm. Vestm. (J. M.) vildi helzt ekki fara út í strictum jus eða ströng lög í þessu máli og skyldist mér, sem það væri vegna þess, að hann áliti aðferð stjórnarinnar koma í bága við lög og lítur hann þá líkt á málið og vér fyrirspyrjendur, þó að hann kæri sig ekki um að fara að finna að við fyrv. hæstv. ráðh. (Kr. J.). Hann um það. Hitt var aftur á móti tvímælalaust rangt, að dagskrá mætti ekki fela í sér ályktun; það er svo langt frá því að svo megi ekki vera, að flestar ef ekki allar dagskrár fela í sér beint eða óbeint ályktun um dagskrárefnið.

Nú er fram komin önnur dagskrá, sem veitist ekki beint að hv. þm. Borgf. (Kr. J.) og er mér sama hvor dagskráin er, sama þó hinum fráfarna ráðherra sé slept, því eins og eg hefi sagt áður, er þessi fyrirspurn fram komin að eins til þess, að sporna á móti líkum brotum framvegis.