13.08.1912
Neðri deild: -1. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 904 í B-deild Alþingistíðinda. (1350)

72. mál, fyrirspurn um innflutning áfengis

Guðlaugur Guðmundsson:

Eg verð nú að segja að mér finst vera gerður „úlfaldi úr mýflugu“, hvað þetta mál snertir. Eftir upplýsingu frá ráðherra. og lögreglustjóra hefir franskt flutningaskip komið hingað á höfnina með 17 ámur af rauðvíni. Þetta vín var lögboðinn forði handa frönskum fiskiskipum hér við land. Þegar þetta flutningsskip kom, þá voru fiskiskipin ekki tilbúin að taka á móti vininu — hversvegna veit eg ekki. — (Kristján Jónsson: Þau voru fjarverandi.) Heyrt hefi eg og að skipstjórinn á flutningaskipinu hafi ekki vitað, fyr en hann kom til landsins, að ekki væri leyfilegt að flytja vínföng í land og hafa þau þar um stundarsakir og því orðið í vandræðum og þá snúið sér til stjórnarinnar. Enginn hefir borið brigður á að vínið hafi verið afhent til settra móttakanda og enginn hefir gefið í skyn að raskað hafi verið innsiglum bæjarfógeta eða neinn dropi af víninu hafi farið í land hér. Fiskiskipin sum fara daglega fram og aftur um hafnir og landhelgi og hafa vín um borð, sem ekki er sett innsigli fyrir, og er það leyfilegt samkvæmt 5. gr. bannlaganna. Eg get því ekki séð að það sé móti orðum eða anda bannlaganna, þótt þessi vínföng, sem voru ætluð til skipsforða væri falin lögreglustjóra til geymslu úti á sjó um stundarsakir, þangað til skipin gátu tekið á móti þeim.

Háttv. 1. þm. Rv. (L. H. B.) hélt því fram að andi bannlaganna væri sá, að loka landinu fyrir öllum vinföngum, en ekki get eg séð að það stríði neitt móti anda laganna að þetta hefir verið gert, og einkanlega þegar vínföngin voru sett undir gæzlu og innsigli lögreglustjóra.

Eg sé því enga ástæðu til þess að vera nú að tala um vítavert brot, þar sem að eins er að tala um tilhliðrunarsemi af hálfu stjórnarinnar, tilhliðrunarsemi sem stjórnin gat neitað um, en einnig hafði vald til að leyfa, enda engin ástæða til annars. Eg hygg að það verði ekki til þess að auka vinsæld bannlaganna að fylgja þeim stranglegar fram, en hér er um að ræða. Ofmikill einstrengingsskapur er bannlögunum til ills eins. Sé eg því enga ástæðu til þess að víta stjórnina fyrir þetta eins og gert er Í dagskránni.

Önnur hlið á málinu er sú, er að tolllögunum snýr. Það er gömul regla, að skip í landfestum eða við akkeri, er skoðað sem „land“, og eftir þeirri reglu ætti að vera skylt að borga toll af vínföngum, sem flutt eru í skip, sem liggur við akkeri. En Frökkum hefir um mörg ár verið leyft eða liðið það að flytja milli skipa í landhelgi skipsforða af víni, án þess að tollur hafi verið heimtur, og þannig er því varið í þessu máli. (Jón Ólafsson: Hvernig vita menn það?) Ráðherra og lögreglustjóri hafa sagt það, og það álít eg nóga tryggingu fyrir því að það sé rétt.

Þetta er gömul venja gagnvart Frökkum, en ekki öðrum þjóðum. Þessi venja er orðin, einnig að því er snertir útflutningsgjald á fiski, sem fluttur er milli skipa í landhelgi, svo rík, að ef henni væri raskað, þá mundu stjórninni berast mótbárur frá frönsku stjórninni. Hvorki á núverandi né fráfarandi stjórn sök á því að þessi venja er á komin, heldur danska stjórnin, sem kom þessari venju á fyrir 30—40 árum.

Eg leyfi mér að bera upp svohljóðandi rökstudda dagskrá:

„Um leið og deildin lýsir yfir því að hún telur svar ráðherra fullnægjandi, en væntir þess að framvegis verði allrar varúðar gætt í þessum efnum, tekur deildin fyrir næsta mál á dagskrá“.