15.08.1912
Neðri deild: -1. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 911 í B-deild Alþingistíðinda. (1358)

75. mál, mælingar á Gilsfirði

Fyrirspyrjandi (Bjarni Jónsson):

Eg hefi þegar lagt þessa fyrirspurn einslega fyrir ráðherra og fengið þá skýrslu sem mér er næg, en eg hefi þó beðið hann um að veita hin sömu svör hér í deildinni, svo að menn í Dalasýslu, sem þetta mál varðar, geti lesið þau í þingtíðindunum. Þetta mál snertir auðvitað aðallega menn sem búa í nánd við Salthólmavíkina. Mörgum þar búandi mönnum er nauðsynlegt, að vita hvenær þessi mæling á leið inn Gilsfjörð geti farið fram, vegna þess að þeir ætla sér að ráðast í ýms fyrirtæki í sambandi við siglingaleið inn fjörðinn, þegar búið verður að mæla hann, og geta þeir því ekki byrjað á þeim fyr en þeir vita hvenær mælingin verður framkvæmd. Þess vegna bið eg hæstv. ráðh. (H. H) að gefa þessi svör opinberlega hér á þingi.