15.08.1912
Neðri deild: -1. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 912 í B-deild Alþingistíðinda. (1359)

75. mál, mælingar á Gilsfirði

Ráðherrann (H. H.):

Eins og hv. þm. mun kunnugt, var á þingi 1909 veittar á fjáraukalögum 10.000 kr. til mælingar á leiðum inn Gilsfjörð. Áður en lögin voru staðfest símaði stjórnarráðið til sjómálastjórnarinnar að vinda bráðan bug að þessari mælingu. Í maí 1909 kom það svar frá henni, að ómögulegt væri að framkvæma mælinguna fyr en herforingjaráðið væri búið að láta mæla sveitirnar í kringum fjörðinn. Þá skrifaði stjórnarráðið hermálastjórninni og beiddi hana að flýta uppmælingu á þessu svæði sem mest. Hún brást vel við, en sagði jafnframt, að ekki væri hægt að ljúka mælingunni á skömmum tíma; hún væri talsvert erfið viðfangs vegna þess hve margar eyjar og hólmar eru þar fyrir landi, og þyrfti því talsverðan undirbúning, og þyrfti að gera talsvert af þríhyrningamælingum áður.

Nú er öllum þessum undirbúningi lokið.

Í marz spurði stjórnarráðið flotamálastjórnina aftur hvenær hægt væri að framkvæma mælinguna, og hún svaraði í apríl, að ekkert væri því til fyrirstöðu að það gæti orðið sumarið 1913. Um kostnaðinn sagði hún, að hann mundi ekki fara upp úr 10.000 krónum. Þetta var svo tilkynt sýslumönnunum í Barðastrandarsýslu og Dalasýslu, og við þetta stendur.

Þá er í fyrirspurninni óskað svars um, hvort nýja fjárveitingu þurfi. Já, þess þarf, vegna þess að féð var veitt á fjáraukalögum fyrir árin 1908—1909, og landsreikningar eru tilbúnir og úrskurðaðir fyrir það fjárhagstímabil. Á þessu þingi vill stjórnin ekki koma fram með neitt fjáraukalagafrumvarp, vegna þess að hætt er við að það mundi aukast eins og skriðan í för sinni. En við því má ekki fjárhagurinn nú. Hins vegar eru þó ýms óhjákvæmileg útgjöld, sem greiða verður upp á væntanlega fjáraukaveitingu á næsta reglulegu þingi, og nota eg tækifærið til þess að nefna þar á meðal gjöld til háskólans og annara skóla, og bráðnauðsynlega viðgerð á Holtsá undir Eyjafjöllum, sem er að eyðileggja margar jarðir þar, og nokkur önnur útgjöld eru óhjákvæmileg nú þegar.

Að því er snertir þau útgjöld til þessa fyrirtœkis, sem hér er um að ræða, er greiða kynni að þurfa fyrir næsta þing, mun eg ekki hika við að greiða þau af hendi upp á væntanlega endurveiting á næsta þingi, og ef ekki koma fram mótmæli gegn þeirri ráðstöfun hér frá deildinni nú, þá skoða eg það sem heimilað.