21.08.1912
Neðri deild: -1. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 925 í B-deild Alþingistíðinda. (1362)

82. mál, viðskiptaráðunauturinn

Ráðherrann (H. H.):

Svar mitt verður stutt og lítið. Eg hefi engan þátt tekið í neinum af þeim stjórnarathöfnum, sem hinn háttv. fyrirspyrjandi gerði að umtali og aðfinningarefni og ber þar af leiðandi heldur enga ábyrgð á þeim, enda lít eg svo á sem aðaltilgangur fyrirspurnarinnar sé sá að koma því til vegar að þingið gefi stjórninni bendingar um, hvernig hún framvegis eigi að hegða sér gagnvart viðskiftaráðunautnum, og hvert eftirlit hún eigi með honum að hafa og er mér ánægja að hlýða á hvert álit þingsins er í því efni. Sé svo að stjórnin hafi hingað til tekið mjúkum höndum á viðskiftaráðunautnum, þá hygg eg að því hafi ráðið kurteisi við þingið. Stjórnin mun hafa litið svo á að hér væri um persónulega styrkveiting að ræða, sem hún ætti aðeins að sjá um greiðslu á, en ekki skifta sér af að öðru leyti.

Eg get ekki verið því samþykkur að stjórnin geti breytt erindisbréfi viðskiftaráðunautsins eins og fjárveitingin til hans er orðuð í gildandi fjárlögum, þar sem vitnað er til erindisbréfsins frá 30. júlí 1909. Í því bréfi stendur að vísu að viðskiftaráðunauturinn verði að sætta sig við þær breytingar, sem gerðar kunna að verða á erindisbréfi hans. En þar með er ekki sagt að Alþingi vildi sætta sig við, að erindisbréfinu væri breytt af stjórninni, eftir að þingið er búið að samþykkja, að störfum ráðunautsins skuli hagað samkvæmt bréfinu.

Annars vona eg að fyrirrennari minn hv. þm. Borgf. (Kr. J.) svari fyrirspurninni, því að hann er þessu máli kunnugastur, þar sem um er að ræða hluti, sem skeðu í hans embættistíð, og skal eg leyfa mér að afhenda honum öll skjöl þessu máli viðvíkjandi, sem í vörzlum stjórnarinnar eru.